Sjómenn sendir í sjóinn í endurmenntun – Myndir
Skólaskip Slysavarnaskóla sjómanna heimsótti Austfirði nýverið í fyrstu ferð sinni um landið í sex ár. Skipverjar á Gullveri frá Seyðisfirði voru meðal þeirra sem sóttu námskeið um borð í skólaskipinu.Sjómenn þurfa að taka slysavarnanámskeiðið á fimm ára fresti til að viðhalda atvinnuréttindum sínum. Sjómennirnir voru meðal annars látnir æfa að bjarga mönnum úr sjó, að velta björgunarbát og komast um borð í hann og viðbrögð við eldi, meðal annars reykköfun.
Sæbjörgin kom við bæði í Vestmannaeyjum og Neskaupstað áður en röðin kom að Seyðisfirði og síðar Akureyri. Á Seyðifirði mætti 17 manna áhöfn Gullvers í tveggja daga námskeið en það sóttu einnig smábátasjómenn.
Þá var tækifærið nýtt til að skoða aðstæður um borð í Gullveri sem skólastjórinn sagði „til fyrirmyndar" eftir heimsóknina.
Þetta var fyrsta ferð Sæbjargar út á land frá árinu 2008. Niðurskurður fækkaði ferðunum eftir hrun en eins hefur verið mikil ásókn í sérhæfð námskeið sem haldin hafa verið í Reykjavík. Íslenskir sjómenn hafa sótt í þau til að fá alþjóðleg réttindi til að geta leitað sér að störfum erlendis. Þannig hafa þeir brugðist við fækkun í áhöfnum íslenskra skipa.
Austurfrétt fékk að fylgjast með hluta æfinganna.