Auðdís Tinna hlýtur styrk frá New York Film Academy: Er að springa úr hamingju

auddis

Svo virðist sem Auðdís Tinna Hallgrímsdóttir sé á leið í frekara nám í Bandaríkjunum  þar sem hún fékk þær gleðifréttir fyrir skemmstu að hinn virti kvikmyndaskóli, New York Film Academy ætlar að styrkja hana til námsins.

Auðdís Tinna Hallgrímsdóttir er 26 ára gömul og ólst upp í Fellabæ. Hún er dóttir hjónana  Hallgríms Gíslasonar sjómanns frá Hallfreðarstöðum í Tungu og Fjólu Jóhannsdóttur úr Breiðdal. Hún útskrifaðist úr Alþjóðlega kvikmyndaskólanum í París, Eicar um síðustu jól,  en hvernig kemur það til að hún hlýtur þennan heiður? Austurfrétt hringdi í Auðdísi til að spyrja hana betur út í þetta.

„Fljótlega eftir að ég kláraði skólann í París fór ég að skoða skóla fyrir masterinn og pantaði bæklinga frá nokkrum skólum, New York Film Academy var einn af þeim. Fljótlega hringdu þeir í mig og eftir það var ekki aftur snúið og ég sótti um hjá þeim.

Þessi skóli hefur verið draumaskólinn min lengi. Ég var 16 ára þegar ég pantaði mér fyrsta bæklinginn frá þeim og geymdi hann í náttborðinu mínu í mörg ár á eftir. Í  framhaldi af umsókninni sótti ég svo um nokkra styrki og fékk svo tilkynningu fyrir skemmstu að NYFA ætlaði að styrkja mig. Ég er að springa af hamingju".


Styrkurinn sem Auðdís Tinna fær úthlutað kallast „Talent based scholarship“ og hljóðar hann upp á 4.200 dollara. Hún er enn að ganga frá pappírsvinnunni sem er heilmikil, en það lýtur út fyrir að þessi eldklára Fellamær setjist á skólabekk í Los Angeles í byrjun næsta árs í útbúi New York Film Academy þar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar