Sumarsýningum lýkur um helgina
Á næstu dögum lýkur fjórum sýningum sem staðið hafa yfir á Austurlandi í sumar. Á Djúpavogi lýkur sýningunni Rúllandi snjóbolti 5 í dag. Þar hafa 33 listamenn frá Kína, Íslandi, Hollandi og nokkrum öðrum ríkjum sýnt verk sín í gömlu Bræðslunni. Nokkur af stærstu nöfnum íslenskrar myndlistar eiga verk á sýningunni, þeirra á meðal Sara Riel, Erró, Rúrí og Sigurður Guðmundsson.Í Dahlshúsi á Eskifirði hefur undanfarnar vikur staðið yfir sýning á verkum Helgu Unnarsdóttur, leirkerasmiðs. Þetta er fyrsta sýning Helgu á heimaslóðum í fjórtán ár en hún er fæddur og uppalinn Eskfirðingur. Sýningin er opin á milli kl. 15 og 18 og lýkur á morgun, laugardag.
Í Sláturhúsinu á Egilsstöðum er sumarsýningu hússins að ljúka. Hún er tvíþætt því annars vegar er sýning á verkum félaga í SAM-félaginu, grasrótarsamtökum skapandi fólks á Austurlandi en hins vegar sýning á afrakstri hönnunarverkefnisins Designs from Nowhere sem fram fór í fjórðungnum síðasta vetur.
Á mánudag klukkan 21:00 verða þar tónleikar með hljómsveitinni Minua og á fimmtudagskvöld Gelid Phase – eða sjónræn hljóðlist sem er samstarfsverkefni íslensku listakonunnar Ragnheiðar Bjarnason og hinnar sænsku Laurne Röde.
Á Vopnafirði er sýningin „Yfir hrundi askan dimm" í Véla- og tækjasafninu en hún fjallar um um öskufallið sem kom í kjölfar eldgossins í Öskju 1875. Sýningin hefur fengið mjög góðar viðtökur og verður opin fram til 20. ágúst.
Alþjóðlegu listsýningunni Rúllandi snjóbolti 5 á Djúpavogi lýkur í dag.