Circus Baldoni: Íslenskir áhorfendur taka okkur eins og rokkstjörnum

IMG 6516 webStjórnandi hins danska Circus Baldoni er ánægður með viðtökur austfirska áhorfenda en sirkusinn hefur sýnt tvær sýningar hér á undanfarinni viku. Hann segir það hafa verið draum sinn í rúm tuttugu ár að koma með eigin sirkus til landsins.

„Ég kom hingað fyrst með sirkus árið 1986 og þá fórum við hringinn með tjald. Eftir það dreymdi mig að snúa aftur með minn eigin," segir René Mønster sem stýrir Circus Baldoni.

Sirkusfólkið hélt af landi brott í dag eftir að hafa sýnt í Neskaupstað í gær og Egilsstöðum fyrir viku en á milli hafði það ferðast um Norðurland.

René stofnaði sirkusinn árið 2002 ásamt konu sinni Thessu Daniellu og lét drauminn rætast árið 2008. Sirkusinn kom aftur ári síðar en efnahagslægðin gerði það að verkum að hlé varð á ferðunum þar til nú.

„Fyrsta árið sem við komum fórum við líka til Reykjavíkur, það var áður en við föttuðum hvað hringvegurinn er langur. Við komum til Seyðisfjarðar og höfum bara viku en við færum víðar ef við hefðum tvær vikur."

Í Danmörku starfa sjö sirkusar og hefja þeir sýningar í lok mars en þær standa fram í miðjan ágúst og á því tímabili eru um níutíu bæir og þorp heimsótt. Að því loknu er farið í víking til Færeyja.

„Fyrst við erum komin það langt þá getum við alveg farið lengra," segir René um Íslandsreisurnar. Sirkustjaldið sjálft er þó ekki með þar sem heldur dýrt og flókið er að færast með það milli landa.

Á veturna tekur sirkusinn að sér önnur verkefni. Hann stendur fyrir jólasirkus og heimsækir leik- og grunnskóla með leiksýningar og skemmtanir. Þá er næsta sumar undirbúið en skipt er um atriði á hverju ári.

René stefnir að því að koma sem fyrst aftur enda séu íslenskir áhorfendur sérstaklega skemmtilegir. „Þeir eru stórkostlegir. Þeir öskra eins og þeir séu á rokktónleikunum. Danir eru hlédrægari og sérstaklega Færeyingarnir en íslenskir áhorfendur eru virkilega góðir."

Frá sýningu Circus Baldoni í Neskaupstað í gærkvöldi. Myndir: Kristín Hávarðsdóttir

IMG 6578 webIMG 6627 webIMG 6663 webIMG 6728 webIMG 6747 webIMG 6800 webIMG 6900 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar