Frambjóðendur til nemendaráðs í VA buðu upp á hoppukastala og kandísflos

va nemendaradskosningar2014Tíu frambjóðendur eru til fjögurra sæta í nemendaráði Verkmenntaskóla Austurlands (NIVA) en úrslitin verða kunngjörð í dag. Frambjóðendur settu upp hoppukastala og buðu upp á kandísflos við skólann í vikunni.

„Mig og vin minn langaði að komast í nemendaráðið og við tókum bara „go big or go home" dæmi á þetta til að reyna að gleðja fólkið og leyfa öllum að finna krakkann í sér aftur," segir Rúnar Már Theodórsson, frambjóðandi.

„Við vinnum hjá hopp.is og ákváðum að skella í tvo hoppukastala og splæsa kandísflos á hringinn og allir sem mættu virtust hafa gaman og fýla sig í botn."

Tíu eru í framboði en kosið er um fjögur laus embætti í ráðinu, þar af er eitt sérstaklega ætlað nýnemum. „Við ákváðum að reyna við nemendaráðið til að koma á aðeins betra félagslífi í skólanum."

Hann vonast til að betur gangi hjá honum í ráðinu heldur en við kandísflosvélina. „Ég ætla aldrei aftur að reyna að snerta hana því þetta gekk ekkert hjá mér!" segir hann og hlær.

Kosið var í gær og úrslitin verða kunngjörð á nýnemadegi í dag. Rúnar treystir sér ekki til að spá fyrir um úrslitin en segir stemminguna hafa verið góða í kosningabaráttunni.

„Hún var mjög góð á þriðjudaginn og fólk úti í bæ og samnemendur hrósa manni fyrir þetta."

Mynd: Áslaug Lárusdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar