Björn Thoroddsen í Fjarðarborg í kvöld

Bjorn thoroddsenÞað verður boðið upp á gítarveislu í Fjarðarborg á Borgarfirði eystri í kvöld, þriðjudagskvöld þegar Björn Thoroddsen kemur þar fram á tónleikum.

Björn hefur undanfarin 30 ár verið einn af atkvæðamestu tónlistarmönnum Íslands og hefur hlotið ýmsar viðurkenningar á ferli sínum. Hann hefur ásamt því að vera í forsvari fyrir Guitar Islancio leikið með fjölda þekktra erlendra tónlistarmanna.

Á síðustu misserum hefur Björn verið að koma sér inn í alþjóðlegu gítarhringiðuna með því að leika með listamönnum á borð við Tommy Emmanuel og Kazumi Watanabe ásamt því að stjórna gítarhátíðum í Bandaríkjunum, Kanada og Noregi.

Á tónleikunum í kvöld mun hann flytja rokk, kántrí, blús, popp og jafnvel þungarokk. Munu tónleikagestir heyra lög úr smiðju Bítlanna, Rolling Stones, AC/DC, Police, Who og fleiri. Björn sýnir ennfremur á sér nýjar hliðar en hann kemur fram aleinn og óstuddur án aðstoðarmanna. Tónleikarnir hefjast kl.20:00.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar