RAX í dómnefnd um bestu þokumyndina
Þann 20. september n.k. lýkur ljósmyndasamkeppni Þokuseturs Íslands um bestu þokumyndina. Samkeppnin hefur verið í gangi síðustu mánuði og hafa fjölmargar myndir borist að sögn Ívars Ingimarssonar, fyrrverandi atvinnumanns í knattspyrnu og eins af aðstandendum þokusetursins.Glæsileg verðlaun eru í boði fyrir bestu þokumyndina. Þokusetrið mun í samstarfi við Myndsmiðjuna gefa frábæra Canon Power Shot SX50 myndavél til þess sem talinn verður hafa tekið bestu myndina að mati sérstakrar dómnefndar sem tekið hefur að sér það erfiða verkefni að kveða upp úr um það.
Í dómnefndinni eru valinkunnir einstaklingar. Fyrstan er að nefna Ragnar Axelsson, betur þekktur sem RAX. Að sögn Ívars er mikil ánægja með að Ragnar hafi tekið þetta starf að sér, enda hann þekktasti ljósmyndari landsins og þó víðar væri leitað, margverðlaunaður og afar virtur á sínu sviði. “Það er mikil viðurkenning fyrir Þokusetrið að hann skuli hafa tekið sæti í dómnefndinni og erum við þakklát fyrir það.”
Með Ragnari í dómnefndinni eru Björg Björnsdóttir, verkefnisstjóri á sviði nýsköpunar og þróunar hjá Austurbrú, þaulreynd fjölmiðlakona og mikill áhugamaður um íslenska náttúru og ljósmyndir, Barbara Gancarek-Sliwinska, ljósmyndari frá listaháskólanum í Poznan, Póllandi, en hún starfar sem ljósmyndari á Egilsstöðum, Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingarfulltrúi Alcoa Fjarðaáls, sem starfað hefur í markaðs- og kynningarmálum eftir útskrift úr fjölmiðlafræði frá Háskólanum á Akureyri og Gunnar Gunnarsson, ritstjóri héraðsfréttamiðilsins Austurfréttar og áhugaljósmyndari.
“Við erum afar ánægð með að þessi frábæri hópur fólks hafi tekið þetta verkefni að sér, það verður ekkert auðvelt að velja á milli þeirra frábæru mynda sem við höfum fengið. Enn eru nokkrir dagar til að senda okkur þokumyndir og við viljum hvetja alla til að taka þátt. Við munum velja myndir til að gefa út dagatal og nota í starfi Þokusetursins þegar það opnar, sem verður vonandi á næsta ári” segir Ívar.
Myndum skal skila í netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og þar gefur að líta skilmála keppninnar. Þokusetrið er einnig með facebook síðu, Þokusetur Íslands, en mikilvægt er að þátttakendur skili myndum inn á netfangið!