Austfirskt hönnunarverkefni á London Design Festival
Hönnunarverkefnið „Austurland: Designs from Nowhere“ er nú til sýnis á hinu virta London Design Festival. Verkefnið er alþjóðlegt samstarfsverkefni og snýst um að rannsaka möguleika til smáframleiðslu á Austurlandi þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi.London Design Festival er ein virtasta og rótgrónasta hönnunarsýning heims þar sem þekktir hönnuðir sýna sín nýjustu verk. Hönnuðurnir sem standa að „Austurland: Designs from Nowhere“ eru Max Lamb, Þórunn Árnadóttir, Julia Lohmann og Gero Grundmann.
Verkefnið var unnið í samstarfi við fólk og fyrirtæki víðsvegar á Austurlandi haustið 2013. Hönnuðirnir störfuðu ýmist með gamalgrónum fyrirtækjum eins og netagerðinni Egersund á Eskifirði sem og einstaklingum á borð við Vilmund Þorgrímsson sem býr yfir yfirgripsmikilli sérþekkingu á náttúru Austurlands. Áhrif samstarfsaðilanna á hönnunarferlið endurspeglast í verkunum sem eru gerð úr netum, hreindýrahornum, þara, rekavið og grjóti - innblásin af upplifun hönnuðanna á Austurlandi þar sem sagnir, nýjar og gamlar aðferðir og mannauður spila hvert sitt hlutverk. Markmið verkefnisins var að nýta þær auðlindir sem felast í verkþekkingu og efniviði svæðisins.
Austurland er víðfeðmt svæði en í fjórðungnum búa einungis 11.000 manns í átta sveitarfélögum. Á undanförnum árum hefur verið vakning í þá átt að beina sjónum að handverki á svæðinu og verkefnið „Austurland: Designs from Nowhere“ er lýsandi dæmi um þá vitundarvakningu.
Mynd: Þórunn Árnadóttir að störfum í netagerðinni Egersund á Eskifirði