Seyðfirðingar glöddust á hverfahátíð - Myndir
Líf og fjör var á hverfahátíð á Seyðisfirði sem haldinn var fyrir skemmstu. Bæjarbúar neyddust þó til að fresta hátíðinni frá laugardegi fram á sunnudag vegna veðurs en það spillti ekki gleðinni og fór hún þá fram í blíðskaparveðri þótt „logið væri heldur að flýta sér um tíma."Hverfahátíðin hefur verið fastur liður á Seyðisfirði um nokkurra ára skeið og hefur lengst af farið fram um miðjan ágúst.
Að þessu sinni var bætt við það sem verið hefur áður og byrjað með léttum ratleik fyrir alla fjölskylduna uppúr hádegi, þegar leið á daginn var svo boðið upp á hoppukastala fyrir börnin á meðan grillin voru undirbúin.
Þá var farið í svokallað „HverfaQuiz" og Daðabikarinn afhentur best skreytta hverfinu en það var bláa og rauða hverfið sem bar sigur úr bítum að þessu sinni.
Því næst tók við varðeldur og héldu ungir seyðfirskir tónlistarmenn upp stemmningunni á meðan, einnig steig óvænt á stokk franskur ferðamaður sem reyndist vera ágætis „beat boxari" eða taktkjaftur eins það hefur verið kallað og vakti hann mikla lukku viðstaddra.
Hátíðinni lauk síðan með glæsilegri flugeldasýningu í boði fyrirtækja á Seyðisfirði en það voru félagar í björgunarsveitinni Ísólfi sem sáu um framkvæmd hennar.