Kvöldstund með Helga Björns á Austurlandi – 30 ára söngafmæli
Hinn landsþekkti söngvari og leikari Helgi Björnsson fagnar söngafmæli um þessar mundir, en það eru 30 ár síðan fyrsta hljómplatan kom út með þessum ástsæla söngvara.Það var Get ég tekið sjéns með hljómveitinni Grafík, sem innihélt meðal annars lögin 16, Húsið og ég (Mér finnst rigningin góð) og Þúsund sinnum segðu já. Síðan tók við óslitin sigurganga með SSSól, Reiðmönnum vindanna og undir eigin nafni.
Helgi ætlar að fagna þessum tímamótum með 30 tónleikum víðsvegar um landið undir heitinu Kvöldstund með Helga Björns og nú er komið að okkur hér fyrir austan og mun Helgi koma fram á fjórum tónleikum á Austurlandi um helgina.
Fyrstu tónleikarnir verða í Löngubúð á Djúpavogi í kvöld. Annaðkvöld verður hann í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði. Á laugardagskvöld verður hann í Herðubreið á Seyðisfirði og endar svo á sunnudagskvöldið á Kaupvangskaffi á Vopnafirði. Allir tónleikarnir hefjast kl 20:30, miðasala er við innganginn og er miðverð 2.990 krónur.
Á tónleikunum um helgina mun Helgi rifja uppferilinn í tali og tónum, segja frá tilurð laganna, rifja upp einhverjar rokksögur, taka fram gamlar poppflíkur og sýna nokkurgóð dansspor.
Meðreiðarsveinn Helga verður Guðmundur Óskar Guðmundsson bassaleikari Hjaltalín og munu þeir félagar galdra fram tóna úr hinum ýmsu hljóðfærum.
„Ég er svakalega spenntur að koma austur, það er svo fallegt þar,“ sagði Helgi þegar Austurfrétt heyrði í honum í vikunni. „Ég hef oft ferðast um Austurlandið og spilað á böllum, en núna verður stemmingin öðruvísi þar sem ég verð í meiri návígi við íbúa svæðisins. Ég vonast til að sjá sem flesta og lofa skemmtilegri kvöldstund.“