Elfa Hlín í yfirheyrslu: Vonandi koma líka nágrannar okkar af Austurlandi í heimsókn

elfa minnisÞað hefur verið í nægu að snúast hjá Elfu Hlín Pétursdóttur að undanförnu. Hún er Seyðfirðingur með flakkaraeðli. Nýkomin heim úr vinnuferð í Vesterålen í Noregi með viðkomu í Hólminum og Reykjavík. Hún er bæjarfulltrúi á Seyðisfirði, hefur yndi af því að lesa og dansa og vinnur fyrir sér sem verkefnisstjóri hjá Austurbrú að menningarmálum.

„Undanfarið hefur mikill tími farið í að undirbúa Haustroða, markaðs- og uppskeruhátíð fjölskyldunnar sem haldinn verður á morgun, laugardaginn 4. okt á Seyðis. Þar er allt að smella saman og dagskráin skemmtileg og fjölbreytt. Hinn árlegi Haustroðamarkaður verður þar sem fjöldi fólks er búið að panta borð og alls konar gull verða til sölu og hægt að gera góð kaup. Ég á von á því að það verði mikið líf og fjör í bænum, ekki síst þar sem hér fer fram Íslandsmót í einstaklingskeppni í Boccia og því eru hér nokkur hundruð keppendur og fylgdarlið. En vonandi koma líka nágrannar okkar af Austurlandi í heimsókn, til þess er leikurinn gerður,“ sagði Elfa Hlín í samtali við Austurfrétt. Elfa Hlín er í yfirheyrslunni að þessu sinni.

Fullt nafn: Elfa Hlín Pétursdóttir

Aldur: Fertug

Starf: Verkefnastjóri hjá Austurbrú.

Maki: Á voða ljúfan kærasta sem heitir Tryggvi Gunnarsson.

Börn: Engin

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Ó þeir eru svo margir. Þetta er eins og að biðja fólk um að gera upp á milli barnanna sinna. Skálanes í Seyðisfirði kemur þó sterkt upp í hugann en þar er sérstök orka og umhverfi í boði náttúrunnar.

Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Ísskápurinn minn verður inn á milli afskaplega tómlegur. En oftast er nú til þar brauðostur, sinnepskrukka (svo lengi að klárast úr henni) og eitthvað grænmeti.

Hvaða töfralausn trúir þú á? Trúi bara ekki á töfralausnir en trúi á mátt okkar og möguleika til að breyta hlutunum sjálf.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Vel eldaður humar og ferskt sjávarfang klikkar ekki. Er soddan matargat samt að mér finnst almennt voðalega góður vel eldaður matur, sé hann úr fersku og góðu hráefni.

Ef þú ætlar að tríta þig vel, hvað gerir þú? Ætli ég fari þá ekki fínt út að borða, þríréttað og allur pakkinn.

Hvernig líta kosífötin þín út? RISAstórar náttbuxur og bolur við. Varla húsum hæf þannig en þægileg eru þau.

Er Lagafljótsormurinn til? Í huga þess sem trúir á hann já.

Hver er uppáhalds skyndibitinn þinn? Sushi

Hver er uppáhalds liturinn þinn? Bláir tónar, a.m.k. í fatavali. Látum það liggja á milli hluta hvort að það sé í miklu uppáhaldi þegar kemur að pólitík samt .

Hvað ertu mest spenntust fyrir á Haustroða? Fyrir utan markaðinn, opnu húsin, leiðsagnir um söfn og sýningar og sultukeppni þá held ég að ég sé spennt fyrir hattakeppninni og úrslitum í henni.

Þú getur skoðað dagskrá Haustroða HÉR.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar