Safnaði hálfri miljón á styrktardegi Kröbbu frænku: Þetta er margfalt meira en ég hafði nokkurn tíma ímyndað mér
Styrktardagur Kröbbu frænku var haldinn hátíðlegur á Vopnafirði á laugardaginn var, en það var Elín Dögg Methúsalemsdóttir sem stóð fyrir viðburðinum.„Ég fékk brjóstakrabbamein fyrir tíu árum og sigraðist á því og mig langaði bara að láta gott af mér leiða í tilefni þess að ég á hálfpartinn 10 ára afmæli,“ segir Ella Dögg, eins og hún er jafnan kölluð, í samtali við Austurfrétt.
En hver er Krabba frænka? „Þetta nafn, Krabba frænka, kemur úr bók Önnu Pálínu Arnardóttur vísnasöngkonu. Ég las þessa bók þegar ég veiktist á sínum tíma. Hún gaf sínu krabbameini þetta nafn svo ég tók það upp líka og þess vegna fannst mér viðeigandi að tengja það viðburðinum.“
Ella Dögg lagði mikla vinnu á sig til að gera daginn sem hátíðlegastan. Í boði var glæsilegt kökuhlaðborð, föndurvörur og ýmsir skemmtilegir hlutir. „Ég gerði þetta samt alls ekki ein. Ég ákvað að virkja alla í kringum mig svo það var fjöldi manns sem kom að því að baka,skreyta og föndra. Vinir, ættingjar og í raun allir voru þátttakendur."
Vopnfirðingar létu ekki á sér standa og fjölmenntu í Vopnafjarðarskóla og var hverjum frjálst að leggja fjármuni í söfnunarbaukinn til að styrkja málefnið. En hvernig gekk? „Það er ekki komin endanleg tala en það er eitthvað um hálf miljón, sem er margfalt meira en ég hafði nokkurntíma ímyndað mér. Ég er himinlifandi með þetta, en allur ágóði rennur til Krabbameinsfélags Austurlands og Krafts, sem er félag ungs fólks með krabbamein og aðstandenda þeirra. Upphæðin skiptist jafnt á milli félaganna.
En ætlar Ella Dögg að gera þetta aftur að ári? „Ég veit það ekki, ég er ekkert búin að ákveða það. En mér finnst Styrktardagur Kröbbu sína hvað í raun er hægt að gera þegar samstaða fólks er svona mikil. Þetta heppnaðist vel og ég er þakklát öllum þeim sem lögðu hönd á plóg,“ segir Ella Dögg að lokum.
Skoðaðu myndir af viðburðinum HÉR