Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn haldinn hátíðlegur á föstudaginn: Viljum fagna deginum með öllum þjóðfélagsþegnum
![Frjáls](/images/Frjáls.jpg)
Í tilefni af geðheilbrigðisdeginum sem er á föstudaginn býður deild Geðhjálpar á Austurlandi gestum og gangandi upp á hressingu frá klukkan 14 til 16 í Ásheimum mann- og geðræktarmiðstöð. Með þessu vill deildin vekja athygli á málefnum fólks með geðraskanir.
Sveinn Snorri Sveinsson, formaður deildar Geðhjálpar á Austurlandi, kynnir könnun sem deildin gerði um fjárhagslega afkomu öryrkja á Fljótsdalshéraði og tónlist verður í höndum Jóns Arngrímssonar.
„Við hvetjum alla til að koma. Þetta snýst um það að við viljum fagna Alþjóða Geðheilbrigðisdeginum með öllum þjóðfélagsþegnum. Það er nú bara þannig að þegar við höldum upp á þennan dag erum við að halda upp á geðheilbrigði allra, þeirra sem eru veikir eins og geðheilbrigði þeirra sem eru ekki veikir. Við virkilega vonumst til að sjá sem flesta á föstudaginn,“ segir Sveinn Snorri Sveinsson, formaður deildar Geðhjálpar á Austurlandi.
Ásheimar mann- og geðræktarmiðstöð er að Miðvangi 22 á Egilsstöðum og það er gengið inn í kjallara