Austfirðingur nýr ritstjóri Stúdentablaðsins: Nauðsynlegt að hafa smá vitleysu og sprell í blaðinu

barkinn 2014 0001 webNorðfirðingurinn Daníel Geir Moritz er nýráðinn ritstjóri Stúdentablaðsins sem gefið er út á vegum stúdentaráðs Háskóla Íslands. Hann segist ætla að viðhalda blaðinu sem hagsmunariti stúdenta en blanda við það skemmtiefni.

„Stúdentamál hafa alltaf verið mér hugleikin og starfaði ég í nemendafélögum frá 14 - 23 ára aldurs. Í HÍ las ég ávallt Stúdentablaðið og hafði gaman af," segir Daníel Geir um ástæðu þess að hann sóttist eftir ritstjórastarfinu.

Með Daníel starfar ritstjórn úr hópi nemendaskólans og hittist hún í fyrsta sinn á sunnudag. „Stúdentablaðið hefur ávallt verið rödd stúdenta og mun sú rödd ekki hafa lágt í baráttumálum eða því sem þarf að koma á framfæri."

Daníel Geir segist þó vilja auka framboð á afþreyingu í blaðinu. „Langar greinar einkenna oft blaðið og stundum er það alveg laust við vitleysu og sprell, en eins og allir vita er nauðsynlegt að hafa smá vitleysu og sprell í lífinu."

Daníel Geir er menntaður kennari með framhaldsgráðu í ritlist. Hann gaf árið 2013 út bókina „Að prumpa glimmeri" og var um tíma útvarpsmaður á Rás 2. Fjölmiðlaferilinn hóf hann hins vegar sem blaðamaður hjá Austurglugganum sumarið 2006.

„Það voru mikil forréttindi að starfa þar. Þá náði ég að þróa með mér viðtalstækni sem hefur nýst mér allar götur síðan. Austurglugginn fjallar líka um fólk í litlu samfélagi og er því að mörgu leyti líkt Stúdentablaðinu."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar