Sif Hauksdóttir í yfirheyrslu: Hef gríðarlega þörf fyrir að vera úti í náttúrunni
Sif Hauksdóttir hefur svo sannarlega í mörg horn að líta. Eftir að hafa starfað sem kennari í mörg ár tók hún við sem skólastjóri Grunnskóla Breiðdalshrepps í sumar. Hún rekur sitt eigið ferðaþjónustufyrirtæki og þann 15. október næstkomandi hefur hún störf sem sem verkefnastjóri Breiðdalshrepp þar sem hún og hreppsnefndarmenn munu skipa með sér starfi sveitastjóra. Sif mun samt sem áður gegna stöðu skólastjóra áfram en hluta kennsluskyldu verður létt af henni.„Þessa daganna er ég að aðlagast nýju starfi sem skólastjóri sem ég er óendalega þakklát fyrir, ég er að kynnast svo mörgum verkefnum og góðu fólki. Skólastjórastarfið er fjölbreytt og gefur manni tækifæri að vinna út frá heildarmyndinni. Auk þess er ég að fara að taka við nýju verkefni sem verkefnastjóri Breiðdalshrepps sem leggst vel í mig. Það verkefni snýst að megin þætti um að stýra fjármálum og rekstri sveitarfélagsins í samvinnu við sveitastjórn og skrifstofustjóra. Annars hef ég starfað sem kennari síðatliðin fjórtán ár auk þess að reka ferðaþjónustufyrirtæki í Vík í Mýrdal en það nærir náttúrubarnið í mér, því ég hef gríðarlega þörf fyrir að vera úti í náttúrunni,“ segir Sif þegar Austurfrétt fékk hana í yfirheyrslu.
Fullt nafn: Sif Hauksdóttir
Aldur: 54 ára
Starf: Skólastjóri grunnskólans í Breiðdalshreppi þar sem ég fæ tækifæri til að starfa með 18 ljúfum og skemmtilegum krökkum og frábæru starfsfólki. Hlakka til hvers dags.
Maki: Birgir Harðarson, viðskiptafræðingur
Börn: Þrír flottir strákar og þrjú yndisleg barnabörn
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Hallormsstaðaskógur þar sem ég á góðar minningar og Breiðdalsvík þar sem mannlífið er gott og fjölskrúðug náttúra.
Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Ísskápurinn hjá mér þarf alltaf að vera fullur kemur sér frekar illa núna þar sem ég er ein í heimili þessa daganna en egg, grænmeti og mjólk get ég alltaf gengið að.
Hvaða töfralausn trúir þú á? Jákvæðni, gleði og góðan svefn.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Er mikið fyrir allt fiskmeti og trónir humar þar á toppnum.
Ef þú ætlar að tríta þig vel, hvað gerir þú? Fer í góðan hjólatúr, heitapottinn og enda dekrið á þriggja rétta kvöldverði í félagsskap eiginmannsins.
Hvernig líta kosífötin þín út? Gráar náttbuxurnar sem ég keypti hjá victoria secret fyrir mörgum...mörgum.....mörgum árum og verða bara betri með árunum og bolur
Er Lagafljótsormurinn til? Hef reyndar ekki séð hann ennþá þó ég hafi gert mér ferð en er alveg viss um að hann er þarna.
Hver er uppáhalds skyndibitinn þinn? Serrano alveg svakalega gott, sérstaklega kjúklingaskálin..
Hver er uppáhalds liturinn þinn? Blár og appelsínugulur en ég laðast að sterkum litum þegar kemur að fötum.
Hver er uppáhaldsbókin þín? Ég á margar uppáhalds bækur og hef verulega gaman af því að lesa. Sjálfstætt fólk er ein þeirra og Maður sem heitir Ove – fannst mér frábær.
Hvaða fag finnst þér skemmtilegast að kenna? Það er erfitt að gera upp á milli en ætli ég velji ekki stærðfræðina.
Hvernig leggst nýja starfið í þig og hverju ertu mest spenntust fyrir í nýjum vettvangi? Ég er að fást við mörg ný verkefni þessa dagana. Skólastjórahlutverkið er eitt þeirra og finnst mér það verulega skemmtilegt starf. Ég hlakka líka til að fást við þau verkefni sem bíða mín sem verkefnastjóri. Veturinn er því spennandi og leggst mjög vel í mig.