Tónlist fyrir alla á Austurlandi: Þetta er svo fjörleg, dulúðleg og skemmtileg tónlist

SkuggamyndirVikuna 13. – 16. október leika Skuggamyndir frá Býsans balkantónlist fyrir grunnskólanemendur á Austfjörðum. Tónleikaröðin hófst í Egilsstaðaskóla í morgun og lýkur á á Höfn fyrir hádegi á fimmtudegi.

„Við köllum þetta verkefni Tónlist fyrir alla og felst það í því að spila og kynna fyrir krökkum þessa músík og þau lönd sem tónlistin er frá. Við erum búnir að gera þetta um allt land við mikla kátínu. Við höldum hálftíma tónleika í hverjum grunnskóla fyrir sig og höldum svo tónleika fyrir fullorðna fólkið um kvöldið,“ segir Ásgeir Ásgeirsson einn meðlima hljómsveitarinnar í samtali við Austurfrétt.

Hljómsveitin var stofnuð um mitt ár 2010 en meðlimir hennar eru íslenskum tónlistarunnendum að góðu kunnir. Efnisskrá hljómsveitarinnar er samsett af þjóðlegri tónlist frá Balkanlöndunum en sú tónlist er annáluð fyrir ólgandi tilfinningahita, blandaðan austurlenskri dulúð. Forsprakkar hljómsveitarinnar hafa sótt sér innblástur með ferðum til Búlgaríu,Grikklands og Tyrklands þar sem þeir hafa numið hjá ýmsum þarlendum hljómlistarmönnum.

„Við spilum bara tónlist frá Balkanskaganum og það er mikil dulúð yfir henni. En þetta er fyrst og fremst mjög fjörleg, áhugaverð og skemmtileg tónlist, enda var okkur tekið vel í grunnskólanum á Egilsstöðum í morgun, enda flott sýning. Við erum með skjávarpa og sýnum krökkunum löndin og fánana og svo látum við þau klappa við rythma og fleira. þetta er mjög skemmtilegt,“ segir Ásgeir

Næstu daga mun Skuggamyndir frá Býsans koma fram í 16 grunnskólum á Austurlandi. Enn þeir munu einnig koma fram á kvöldtónleikum á eftirfarandi stöðum:

13. október kl: 20.00 í Sláturhúsinu á Egilstöðum (í kvöld)
14. október kl: 20.00 í Eskifjarðarkirkju
15. október kl: 21.00 í Pakkhúsinu á Höfn

Hljómsveitina skipa : Haukur Gröndal á klarínett, Ásgeir Ásgeirsson á tamboura, bouzouki og saz baglama, Þorgrímur Jónsson á rafbassa, Erik Qvick á trommur.

Skuggamyndir frá Býsans sendi frá sér disk í sumar sem heitir Night without moon og hefur hann fengið gríðarlega góða dóma.


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.