Auður Vala í yfirheyrslu: Eigum von á hörkukeppni á næstu dögum
Það er Auður Vala Gunnarsdóttir sem er í yfirheyrslu Austurfréttar að þessu sinni. Auður Vala er yfirþjálfari hjá fimleikadeild Hattar á Egilsstöðum og hef starfað við það undanfarin ár.Auk starfa sinna hjá fimleikadeildinni rekur hún ásamt manni sínum Gistihúsið Blábjörg og Musteri spa á Borgarfirði Eystra. Það er nóg að snúast hjá yfirþjálfaranum um þessar mundir þar sem Evrópumótið í fimleikum stendur nú yfir í Höfuðborginni.
„Ég er stödd í Reykjavík ásamt fjölda iðkenda, þjálfara og áhugafólks um fimleika frá Egilsstöðum, við erum að fylgjast með Evrópumótinu í hópfimleikum. Umgjörðin er hin glæsilegasta og eigum við von á hörkukeppni á næstu dögum,“ segir Auður þegar Austurfrétt hringdi í hana.
„Nú þegar hafa öll lið lokið keppni í undanúrslitum og gaman að segja frá því að keppendur okkar frá Egilsstöðum sem eiga sæti í mixliði seniora og drengjaliði juniors stóðu sig með prýði í undankeppninni. Núverandi Evrópumeistarar sem er Ísland munu eiga í harðri keppni við Svíþjóð og tel ég að dagsformið muni ráða úrslitum á laugardaginn. Mixlið seniora vona ég að lendi í 3 sæti. En þetta rosalega gaman, EM mótin eru einu skemmtilegustu viðburðirnir sem ég fer á.“
Fullt nafn: Auður Vala Gunnarsdóttir
Aldur: 43 ára
Starf: Yfirþjálfari fimleikadeildar Hattar og gistihúsaeigandi
Maki: Helgi Sigurðsson
Börn: Ásta Dís Helgadóttir, Alvar Logi Helgason og Bjarki Fannar Helgason
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Borgarfjörður Eystri, fegurðin, orkan, friðurinn. Maður endurnærist við að anda að sér loftinu á þessum stað. Þetta er töfrum líkast
Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Kókosmjólk, egg, safi
Hvaða töfralausn trúir þú á? Jákvæðni og gefast aldrei upp
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Sushi Sushi Sushi
Ef þú ætlar að tríta þig vel, hvað gerir þú? Eiga notalegt kvöld með fjölskyldunni og ef ég ætla að gera einstaklega vel við mig er það nudd eða gott andlitsbað.
Hvernig líta kosífötin þín út? Íþróttaföt eru bestu föt sem til eru ! Enda er ég í þeim allan sólarhringinn er svo heppin að geta líka verið í þeim í vinnunni.
Er Lagafljótsormurinn til? Lagarfljótsormurinn lifir góðu lífi í Lagarfljótinu
Hver er uppáhalds skyndibitinn þinn? Ætli það sé ekki subway salat með kjúlla hér á Egilsstöðum.
Hver er uppáhalds liturinn þinn? Gulur, rauður, grænn og blár, svartur, hvítur, fjólublár
Hversu oft hreyfir þú þig í viku? Reyni að hreyfa mig 4-5 x í viku og svo hreyfi ég mig mikið í vinnunni minni.
Hver er uppáhalds bókin þín? Prjónaklúbburinn er bók sem ég mæli með þessa dagana. Einstaklega vel skrifuð og áhrifarík saga
Áttu þér einhverja uppáhalds íþróttagrein? Fimleikar er íþróttagrein sem ég hef miklar mætur á. Lífið mitt hefur snúist um þessa íþróttagrein síðan ég flutti heim aftur til Egilsstaða