18 hlauparar mættu í fyrsta vetrarhlaup Hlaupahérana
Fyrsta hlaupið í vetrarhlaupasyrpu Hlaupahéranna fór fram á laugardaginn. Vetrarhlaupasyrpan samanstendur af sex 10 km hlaupum sem fara fram síðasta laugardag í mánuði frá október fram í mars.„Það var góð stemning og hress hópur hlaupara sem mætti í fyrsta Vetrarhlaupið á Egilsstöðum,“ segir Ólöf Sigurbjartsdóttir á facbooksíðu Hlaupahérana, en það voru átján hlauparar sem tóku þátt á laugardaginn.
Þátttaka í hverju hlaupi gefur 1-5 stig og verða stigahæstu einstaklingarnir verðlaunaðir í lok tímabilsins. Dagsetningar fyrir næstu hlaup eru eftirfarandi: 29. nóvember, 31. desember, 31. janúar, 28. febrúar, og 28. mars.
Hlaupin hefjast við íþróttahúsið á Egilsstöðum kl. 11 nema á gamlársdag kl. 10 og er skráning á staðnum hálftíma fyrir hlaup. Þátttökugjald er 1000 kr. í hvert hlaup og er létt hressing og aðgangur að sundlauginni að hlaupi loknu innifalið.
Vegleg útdráttarverðlaun verða dregin út að hlaupi loknu og fara allir sem taka þátt í pottinn.
Á laugardaginn var var það Ásgeir Már sem var fyrstur í mark á tímanum 43:34. Annar var Jóhann Benediktsson á tímanum 47:36 og þriðji í mark var Stefán Garðarsson á tímanum 48:10. Allir tímarnir verða síðan birtir á síðu Hlaupahérana á facebook og á hlaup.is.
Hlaupahérar hvetja alla, unga sem aldna, byrjendur sem lengra komna, heimamenn og gesti til að mæta og spretta úr spori.
Skoðaðu myndir af fyrsta vetrarhlaupinu HÉR.