Fjarðabyggð í Útsvari í kvöld: Mætum með ungt og hresst lið
![utsvar sigurlid 2013 screenshot](/images/stories/news/2013/utsvar_sigurlid_2013_screenshot.jpg)
Jón Svanur Jóhannsson, kennari á Eskifirði, er sá eini sem heldur áfram frá í fyrra en fær nú með sér Guðjón Björn Guðbjartsson, nema úr Neskaupstað og Ölmu Sigurbjörnsdóttur, matreiðslumann frá Reyðarfirði.
Liðið kom suður í gær en ekkert hefur verið flogið milli Reykjavíkur og Egilsstaða í morgun. Deginum hefur verið eytt í leik og undirbúning fyrir keppnina.
Mótherjar kvöldsins eru Ásahreppur, minnsta sveitarfélagið sem tekur þátt í ár. Íbúar eru þar skráðir 193 og þar af hafa 30 skráð sig í rútuferð sem sveitarfélagið stendur fyrir í sjónvarpssal.
„Það er mikil stemming hinum megin en okkar markmið er að komast áfram og skemmta okkur og öðrum í leiðinni," segir Jón Svanur.
Hann segir Fjarðabyggðarliðið vel stemmt fyrir keppnina í kvöld. „Okkur líst vel á viðureignina. Við erum með ungt og hresst lið sem er tilbúið í slaginn."