Fjórða Sveppamyndin í Sláturhúsinu um helgina: Þetta verður bara stuð
![Algersveppi](/images/stories/news/Algersveppi.jpg)
„Við sýndum Alger Sveppi þrjú í á kvikmyndadögum hér í Sláturhúsinu í fyrra og það heppnaðist svo vel að við ætlum að endurtaka leikinn með Algjör Sveppi fjögur um helgina,“ segir Halldór Warén, Sláturhússtjóri í samtali við Austurfrétt.
Sláturhúsið stendur reglulega fyrir kvikmyndasýningum. „já, við erum alltaf að sýna einhverjar myndir, en ekki svona nýjar. Til þess þarf sérstakt leyfi frá framleiðendum og eitthvað vesen. En í fyrra kom Sveppi og leikstjórinn og skoðuðu aðstöðuna og gáfu grænt ljós. Þeir voru líka rosalega hrifnir af salnum. Þeir hringdu meira að segja að fyrra bragði í ár og spurðu hvort ég vildi ekki sýna myndina í Sláturhúsinu. Þeir greinlega treysta mér til þess að passa að myndirnar séu hjá mér allan tíma,“ segir Halldór
Söguþráður myndarinnar er afar spennandi. Vinirnir Sveppi og Villi komast að því að erkióvinur þeirra hyggur enn á landsyfirráð og hefur í þetta sinn byggt alveg ægilega dómsdagsvél sem getur komið af stað jarðskjálftum og eldgosum Nú kemur ekkert annað til greina hjá þeim félögum en að stöðva hin illu áform vonda kallsins með því að gera dómsdagsvélina hans óskaðlega. Það er hins vegar hægara sagt en gert því hún er undir eldgígnum forna, Eldborg!
„Við erum að búa til bíósal hérna núna að þessu tilefni og poppvélin verður á sýnum stað. Það er búið að kaupa baunirnar og allt er að verða klárt. Þetta verður bara stuð,“ segir Sláturhússtjórinn að lokum
Myndin verður sýnd bæði laugardag og sunnudag klukkan 15 og 17 og miðaverð er 1.500 krónur.