Unglingar frá Egilsstöðum eru aðalsöguhetjurnar í nýjustu bók Þorgríms Þráinssonar, Hjálp!
Hjálp er hörkuspennandi unglingasaga sem er ný komin út. Aðalsöguhetjurnar eru frá Egilsstöðum og hefst ævintýrið í Jökuldalnum hér fyrir austan. Mál og menning gefur bókina út.„Krakkarnir eru að aka um Jökuldalinn strax á fimmtu blaðsíðu. Ég keyrði þessa leið fyrr á árinu þegar ég var að byrja á þessari sögu og tók myndir af brúnni sem þau keyra yfir. Ég kanna alltaf þannig aðstæður áður en ég byrja að skrifa.“ Segir Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur þegar blaðamaður Austurfréttar hringdi í hann til að forvitnast um nýju bókina.
Hvernig kom sú hugmynd til að hafa sögusviðið og söguhetjurnar héðan frá Austurlandi?
„Í stuttu máli var ég búin að ákveða söguþráð um það að bíll með ungmennum færi ofan í einhverja á eins og um bílslys væri að ræða, og áin þurfti að vera þess eðlis að bílinn mundi ekki finnast hugsanlega í fimm til sex daga. Ég ráðfærði mig við fjalla- og fræðifólk og spurði hreinlega hvaða á er þess eðlis að þegar hún er slæm þá mun bíll ekki finnast í henni. Menn sögðu Jökulsá á dal og þess vegna eru krakkarnir frá Egilsstöðum.“
Hver er söguþráðurinn?
„Sagan byrjar á því að krakkarnir eru í svona kosíheitum upp í fjalli í fyrstu tveimur köflunum og eru á leiðinni heim á föstudagskvöldi um nótt og ein stelpa með bílpróf. Þau eru einmitt að keyra yfir þessa brú í Jökuldalnum þegar þeim er rænt. það kemur svartur sendiferðabíll og þau tekin. Bílnum sem þau eru á er ekið utan í vegahandriðið til að láta líta út fyrir að þau hefðu lent í bílslysi. Honum er svo ekið þannig að hann fer veltu svo að allir sjá að þarna fer bílinn út af og enginn finnst náttúrulega því áin er í yfirfalli. Krökkunum var aftur á móti ekið vestur á firði og þeim haldið í kjallara gamla Reykjanesskólans, og bókin fjallar um flóttatilraunir krakkana þaðan á meðan að allir eru að leita af þeim í Jökuldalnum. Ég má ekki segja meira, en ég get þó sagt að þetta er lang, lang, lang besta bókin mín í tvo ár og þótt lengra væri leitað,“ segir Þorgrímur hress að lokum.
Meira um bókina HÉR