Robyn Vilhjálmsson í yfirheyrslu: Ég er strax komin með hugmynd af næstu bók
![Robyn Vilhjalmsson](/images/stories/news/Robyn_Vilhjalmsson.jpg)
"Bókin er fyrir þriggja til sex ára leikskólabörn. Aðalpersóna í bókinni er fjárhundurinn, Píla sem var hundurinn okkar, en hún hefur kvatt okkur. Píla kemst í kynni við kindur, hesta, kýr og hreindýr og í gegnum hana er lært um dýrin, húsakynni og lífshætti þeirra. Þetta var rosalega skemmtilegt verkefni og ég er strax komin með hugmynd af annarri bók,“ segir Robyn þegar Austurfrétt heyrði í henni vegna yfirheyrslunnar.
Robyn er fædd og uppalin í Ástralíu en kemur til Íslands árið 1986 til að vinna í fiski á Neskaupstað. Hún er mjög listræn og hún elskar að ferðast og ganga um í náttúrunni.
„Ég er í Listasmiðju Norðfjarða hér í Neskaupsstað. Og það má kannski geta þess að við erum núna með sýningu í kaffihúsinu Nesbæ. Ég mála með olíu og vatnslitum, og ég hef ofsalega gaman að því þegar ég er á ferðalögum að taka skissubókina með og teikna það sem ég sé í staðin fyrir að nota myndavélina,“ segir Robyn sem er í yfirheyrslu þessa vikuna. Þess má geta að Robyn myndskreytti bókina sína sjál.
Fullt nafn: Robyn Elizabeth Vilhjálmsson
Aldur: 58
Starf: Leikskólakennari
Maki: Sigurður Þór Vilhjálmsson
Börn: Rósa Dóra og Vilhjálmur Þór
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Einhver af gönguleiðunum á Austurlandi. Eru allar svo fallegar
Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Léttmjólk, ost og grænmeti
Hvaða töfralausn trúir þú á? Að bíða aðeins!
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Indverskur matur er í uppáhaldi
Ef þú ætlar að tríta þig vel, hvað gerir þú? Bind á mig gönguskóna og fer í göngu
Hvernig líta kosífötin þín út? Gamall kvennahlaupsbolur, sem er samt svo þægilegur.
Hver er uppáhalds skyndibitinn þinn? Epli
Hver er uppáhalds liturinn þinn? Blár
Hvað er best við það að vinna með börnum? þau eru svo skemmtileg, gefandi, forvitin, krefjandi
Hvert er uppáhalds lagið þitt? Blue eftir Joni Mitchell