Bak við myrkrið á Seyðisfirði: Fóru í sund og jóga fyrir frumsýningu

Bak við myrkrið leikfelag seydisfjardarLeikfélag Seyðisfjarðar frumsýndi leikverkið „Á bak við myrkrið“ eftir Ágúst Torfa Magnússon í Herðubreið síðastliðið laugardagskvöld.

Leikverkið eru fjórir ólíkir einþáttungar með skuggalegu ívaf og eru átta leikarar fram.


„Þetta gekk æðislega vel. Það mættu rúmlega níutíu á frumsýninguna og leikurunum var vel tekið. Enda er búið að æfa stíft og leggja mikið á sig svo að vel takist til,“ segir Eygló Björg Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar og gjaldkeri leikfélagsins þegar Austurfrétt heyrði í henni í morgun.

Það var Ágúst Torfi Magnússon sem samdi leikverkið og gerði hann það sérstaklega í tilefni daga myrkurs.

„Okkur langaði að gera eitthvað í kringum daga myrkurs og það var verið að flétta og skoða hvað væri hægt að gera þegar Ágúst býðst til að skrifa verkið sjálfur og við tókum því fagnandi. Honum tókst vel til eins og alltaf. Í leikritinu er húmor, smá nekt, smá hrollvekja, og óvænt endalok. En það má geta þess að Ágúst skrifaði líka leikritið Villa og sjóræningjarnir sem við sýndum í fyrra og Pelíkaninn sem við sýndum 2012.“

Sund og jóga

En hvernig var frumsýningardagurinn? „Hann var fínn. Leikhópurinn og þeir sem komu að sýningunni eyddu deginum meira og minna saman. Við fórum í sund og jóga og fórum svo öll í Herðubreið að sinna lokaundirbúningi fyrir frumsýningarkvöldið. Það er alltaf stemmning á þessum degi og það skilaði sér svo sannarlega í sýninguna um kvöldið. Nú hvetjum við bara fólk á Austurlandi að mæta og missa ekki af þessu það eru aðeins tvær sýningar eftir,“ segir Eygló Björg að lokum.

Næstu sýningar Í Herðubreið verða 11. Nóvember næstkomandi kl. 20:30 og 14. nóvember kl. 22:00. Miðaverð er 2.000 krónur. Sýningin er ekki við hæfi barna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar