Lista-ljós í myrkri
Í kvöld klukkan 18:00 var sýningin LISTA-LJÓS Í MYRKRI opnuð á Hótel Héraði en þessi viðburður er hluti af dagskrá Daga myrkurs sem nú stendur yfir á Austurlandi. Um er að ræða samstarfsverkefni þar sem Lóa Björk , myndlistarmaður og listgreinakennari í ME hefur fengið til liðs við sig í listsköpun nokkur ljóðskáld á Austurlandi ásamt Bjarna Rafni tónlistarmann og listanemum í áfanganum Samtímalistir af listnámsbraut ME. Þema verkefnisins er veturinn og myrkrið og það hvernig tengja má saman listgreinar eins og ljóðlist, tónlist og sjónlistir.Markmiðið er að kanna hvernig má nýta skammdegið til uppsprettu listsköpunar en ljósið og hið magnaða myrkur er útgangspunktarnir í verkefninu. Lagt var til að ljóðskáldin semdu ljóð þar sem veturinn væru í aðalhlutverki eða nýttu eigin ljóð sem tengjast því þema og í framhaldi af því völdu nemendur sér ljóð til að vinna með. Þegar undirbúningsferli og hugmyndavinnu var lokið var farið í að mynda verkin og vinna nánar með textann og var hann þá ýmist lesinn upp eða unninn á myndrænan hátt. Nemendurnir vinna með ljóðin út frá eigin hugmyndum með ýmsum hætti þar sem blandað er saman líkamstjáningu og náttúrumyndum.
Lóa hefur hvatt þau til að fara ótroðnar slóðir í myndsköpuninni og láta hugmyndaflugið og þær myndir sem birtast þeim í ljóðunum stjórna ferðinni. Listanemarnir hafa undanfarna daga verið að mynda og klippa saman, ýmist leikin atriði eða myndir teknar utanhúss í mismunandi birtu og veðri.
Í kvöld má svo sjá afraksturinn þar sem kvikmyndirnar verða sýndar, ljóðskáldin mæta og lesa upp milli þess sem Bjarni Rafn leikur sér með raftóna sína en hann er mjög efnilegur tónlistarmaður. Hann hefur tekið þátt í hinum ýmsu tónlistarviðburðum síðast liðin ár og hefur meðal annars unnið með hljómsveitinni Samaris. Skáldin sem taka þátt í verkefninu eru Ásgrímur Ingi Arngrímsson, Hrafnkell Lárusson, Hulda Sigurdís Þráinsdóttir, Ingunn Snædal, Sigurður Ingólfsson, Stefán Bogi Sveinsson og Steinunn Friðriksdóttir.
Þess má einnig geta að í tengslum við þetta verkefni gafst listanemendum Lóu Bjarkar kostur á að kynnast verkum, íslenskra og erlendra listamanna sem voru hér á vegum Kristínar Scheving, stjórnanda hátíðarinnar 700.IS. Hreindýraland nú á dögunum. Þau fengu þannig innsýn í videóverk þeirra en þema hátíðarinnar 700.IS nú var einmitt texti í mynd.
Sú hátíð var haldin í Sláturhúsinu en þar tóku einnig á móti þeim 10 þýskir listaháskólanemar í masternámi og sýndu þeim hvernig þau unnu verk sín og voru þau ansi fjölbreytt. Lóa Björk og Kristín Scheving hafa verið í samstarfi allt frá því videólistahátíðin 700.IS hófst fyrir þó nokkrum árum síðan og þar hafa nemendur Listnámsbrautar ME oft fengið að njóta góðs af en þau hafa tekið þátt í námskeiðum í videólist og ýmsum spennandi verkefnum síðan sú hátíð hófst hér á Austurlandi.
Ef vel gengur er stefnt að því að verkið LJÓS Í MYRKRI verði framlag austfirskra listamanna og listnema á Vetrarhátíð í Reykjavík 2015 þar sem þemað þar er einmitt MAGNAÐ MYRKUR. Lóa Björk, höfundur verkefnisins, hefur áður tekið þátt í þeirri hátíð ásamt eiginmanni sínum Sigurði Ingólfssyni með videóverkinu FLÆÐI, sem varpað var upp á vegg í Sundhöll Reykjavíkur við góðan orðstír.Þar tengdu þau einmitt saman myndlist og ljóð en verkið fjallaði um Lagarfljótið.
Mynd: Elsa Katrín