Talsverður áhugi á meintum furðuhlut yfir Reyðarfirði
![reydarfjordur ufo](/images/stories/news/2014/reydarfjordur_ufo.png)
Myndbandið birtist á Mbl.is og hafa ríflega 30 þúsund manns horft á myndbandið. Því hefur verið deilt víða, bæði á ýmsum spjallborðum erlendis sem og vefsíðum sem fjalla um íslenskar fréttir.
Fæstir þeirra sem deilt hafa myndbandinu trúa þó á að þarna sé nokkuð furðulegt á ferð en gera hins vegar frekar grín að auðtrúa Íslendingum.
Þeir spyrja hvort eitthvað sé að lútfiskinum (innsk. blm. sem er norskur réttur), eða hvort geimveran hafi sést veifandi í glugganum eða hrista hausinn og segja að svona fari fyrir þeim sem borði rotinn hákarl.
Þá hefur myndbandinu verið deilt á vefsíðum þeirra sem áhuga hafa á fljúgandi furðuhlutum og líf á öðrum hnöttum.
Sérfræðingar hafa þó sagt að þarna sé líklega flugvél á ferð og útiloka að um geimskip hafi verið að ræða.