Fjarðaál: Átta milljónum varið til að styða samfélagsverkefni á Austurlandi
Alls hlutu 26 samfélagsverkefni víða á Austurlandi stuðning í árlegri haustúthlutun Styrktarsjóðs Alcoa Fjarðaáls sem fram fór í síðustu viku. Hæsta einstaka styrkinn að þessu sinni, eina milljón króna, hlaut Verkmenntaskóli Austurland, til að taka í notkun stafræna Fab-Lab smiðju fyrir nemendur.Auk þess ákvað framkvæmdastjórn Alcoa Fjarðaáls að veita að þessu sinni sérstaka gjöf til allra stúlkna í tíunda bekk í grunnskólunum á Austurlandi með því að færa þeim bókina Tækifærin sem fjallar um fimmtíu konur sem fást við spennandi störf um allan heim og eiga það sameiginlegt að hafa lokið námi á sviði tækni- og raunvísinda.
Að mati Alcoa geyma Tækifærin eftir mæðgurnar Ólöfu Rún Skúladóttur og Hjördísi Hugrúnu Sigurðardóttur skemmtilegar frásagnir og spennandi reynslusögur sem eru gott leiðarljós fyrir ungar stúlkur sem eiga það fyrir höndum að ákveða hvert þær vilja stefna í lífinu með tilliti til menntunar og starfsvettvangs.
Með bókargjöfinni vill fyrirtækið leggja sitt af mörkum til að auka hlutfall kvenna á vinnustöðum sem gjarnan eru skipaðir körlum að miklum meirihluta. Frá upphafi starfseminnar hefur Fjarðaál haft það einarða markmið að jafna sem mest hlutfall karla og kvenna í starfsliði sínu og hefur ýmislegt áunnist í þeim efnum. Konur eru nú um 22% starfsmanna, en það er hærra hlutfall en tíðkast almennt í álverum, og það hæsta innan Alcoa.
Mikilvægt að jafna hlutföllin
Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls, segir að gera þurfi betur því mjög mikilvægt sé að jafna sem mest hlutfall karla og kvenna á vinnustöðum, ekki bara í áliðnaðinum, heldur alls staðar.
„Vinnustaðir þar sem þessi hlutföll eru hvað jöfnust eru bæði skemmtilegri vinnustaðir og þar ríkir almennt betri vinnuandi. Rannsóknir sýna einnig að árangur og hagnaður þessara fyrirtækja er meiri en hinna einsleitu hvað þetta varðar og því ættu öll fyrirtæki að leggja mikla áherslu á jöfn kynjahlutföll," segir Dagmar.
Hún segir að bókagjöfin sé liður í því markmiði fyrirtækisins að vekja aukinn áhuga stúlkna á raungreinum og þeim störfum sem karlar gegna gjarnan en henta ekkert síður konum. Það eigi m.a. við um þau margvíslegu og fjölbreyttu störf sem unnin séu hjá Fjarðaáli.
Stafræn Fab-Lab smiðja
Verkmenntaskóli Austurland er um þessar mundir að taka í notkun stafræna Fab-Lab smiðju, sem hefur það hlutverk að gefa nemendum skólans tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Elvar Jónsson skólameistari tók á móti styrknum fyrir hönd Verkmenntaskólans.
Eftirtaldir hlutu styrk að þessu sinni:
Æskulýðsfélagið Kýros á Vopnafirði - Vinavika í október sl.
Minjasafn Austurlands - Kaup á hljóðbúnaði fyrir safnið
Foreldrafélag Grunnskólans á Eskifirði - Sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stúlkur í 7. - 10. bekk
Flugklúbbur Egilsstaða - Skrifa flugsögu Austurlands
Kajakklúbburinn KAJ á Austurlandi - Kaup á árum og björgunarvestum fyrir börn
Skógræktarfélag Breiðdæla - Girða af skógræktarsvæðið í Breiðdal
Breiðdalssetur - Auka samstarf setursins við skóla á Austurlandi
Félagsmiðstöðin Nýung á Fljótsdalshéraði - Bæta hljóðkerfi fyrir félagsmiðstöðina
Ungmennafélagið Neisti, Djúpavogi - Tækjakaup fyrir félagsmiðstöðina Zion
Íbúasamtök Eskifjarðar - Kaup á setbekkjum
Leikfélagið Djúpið í Verkmsk. Austurl. - Leiklistarnámskeið
Íþrótta- og tómstundarfulltrúi Fjarðabyggðar - Unglingahátíðin Kuldaboli. Þema: heilbrigði og hreyfing
Jaðarsportfélagið 7-40 í Neskaupstað - Aðstaða fyrir hóp hjólabrettaiðkenda
Tengslanet Austfirskra kvenna, TAK - Námskeiðahald sem byggir á bókinni Stígum fram eða Lean in eftir Sheryl Sandberg
Leikfélag Fljótsdalshéraðs - Uppsetning á leikritinu Þið munið hann Jörund
Snotra ehf. - Setja upp leikritið Sögur úr þorpinu á Egilsstöðum
Kammerkór Egilsstaðakirkju - Setja upp jólaóratoríu Bach
Skaftfell - myndlistarmiðstöð Austurlands - Kaup á búnaði til myndlistasýninga
Hljómsveitin Dúkkulísur - Gerð heimildarmyndar um Dúkkulísurnar
Siggi Jensson - Heimildarmynd um rokkhátíðina Eistnaflug
Hollvinasamtök utanspítalaþjónustu í Fjarðabyggð - Kaup á hnoðtækinu Lucasi í sjúkrabíla Fjarðabyggðar
Rauði Krossinn, Héraði og Borgarfirði - Jólasjóðurinn 2014
Rauði Krossinn í Fjarðabyggð og Breiðdalsvík - Jólasjóðurinn 2014
Skólaskrifstofa Austurlands - Innleiðing lestrarkennsluaðferðarinnar Byrjendalæsi á Austurlandi
Mariatafræðslan - Eineltisfræðslan á ferð um Austurlandi með námskeiðið: Þolandi og gerandi frá sjónarhorni beggja
Verkmenntaskóli Austurlands - Koma á fót Fab-Lab smiðju á Austurlandi