Jólaóratoría Bach á Austurlandi
Kammerkór og Kirkjukór Egilsstaðakirkju, ásamt einsöngvurum og hljómsveit munu á sunnudag flytja þrjár kantötur úr frægasta og vinsælasta kórverki sögunnar, Jólaoratoríu eftir Johann Sebastian Bach. Tónleikarnir verða bæði haldnir í Egilsstaðakirkju og Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði.Alls koma hátt í sextíu manns að flutningnum en um er að ræða samstarfsverkefni kóranna tveggja og tónlistarmanna af Austurlandi. Fjórir einsöngvarar taka þátt í flutningnum en þeir tengjast allir landshlutanum með einum eða öðrum hætti.
Andrea Kissine Revfalvi og József Gabrieli-Kiss eru fædd í Ungverjalandi en hafa undanfarin ár starfað sem tónlistarkennarar og kórstjórar á Djúpavogi. Þorbjörn Rúnarsson er fyrrum áfangastjóri Menntaskólans á Egilsstöðum og hefur sungið í fjölda kórverka á Austurlandi. Erla Dóra Vogler er uppalin á Egilsstöðum og flytur í janúar á Djúpavog þar sem hún tekur við starfi ferða- og menningarfulltrúa.
Jólaóratorían er eitt höfuðverka síðbarokksins. Í henni eru sex kantötur sem Bach samdi undir árslok 1734, á fimmtugasta aldursári. Kantöturnar sex átti að flytja á jóladag, annan dag jóla, þriðja í jólum, nýársdag, fyrsta sunnudag í nýári og þá síðustu á þrettándanum. Verkið var frumflutt í Nikulásarkirkjunni í Leipzig og endurflutt sömu daga í Tómasarkirkjunni.
Kórlögin eru útsetningar Bachs á sálmalögum sem sungin voru í þýskum kirkjum og eiga sum hver rætur að rekja til daga Marteins Lúters, sem innleiddi almennan kórsöng í kirkjum. Mörg þessara laga hafa ratað í sálmabækur víða um heim.
Verkið er ekki samið til þess að vera flutt í heilu lagi enda í lengra lagi fyrir slíkan flutning. Algengast er að verkinu sé skipt í tvennt, þrjár kantötur fluttar í senn. Fyrri hlutinn nýtur meiri vinsælda en sá síðari og verður hann fluttur þann 30. nóvember.
Þetta er í þriðja sinn sem Jólaóratorían er flutt á Austurlandi en Keith Reed stjórnaði henni tvisvar í kringum aldamótin. Stjórnandi að þessu sinni er Torvald Gjerde. Tónleikarnir á Egilsstöðum hefjast klukkan 16:00 en 20:00 á Eskifirði.