Hildur Bergsdóttir í yfirheyrslu: Komin með kennsluréttindi í hlátur-jóga
Þeir sem þekkja Hildi Bergsdóttur framkvæmdastýru UÍA og sjálfstætt starfandi félagsráðgjafa vita að að hún getur sjaldnast verið kyrr. Hún þarf alltaf að vera að sýsla eitthvað. Nýverið skellti hún sér á hlátur-jóga námskeið og ætlar hún þegar tími gefst til að miðla þekkingunni til annarra Austfirðinga.„Hláturjóganámskeiðið kom nú eiginlega til af því að mig langaði svo óskaplega í nám í jákvæðri sálfræði, en þegar ég sá verðmiðann á því námi fór úr mér allur vindur. En svo hugsaði ég með mér að það væri nú frekar súrt að láta það enda í einhverju væli að komast ekki að svo stöddu í nám í jákvæðri sálfræði og það væri nú ekkert vit í öðru en að gera eitthvað jákvætt og skemmtilegt í stöðunni. Ég fór að skoða og fann þetta nám í hláturjóga og er sannfærð um að þetta sé frábær heilsuefling og hópefli sem skili manni endurnærðum og spriklandi fjörugum út í daginn.“
Hlátur bætir lífið
Þetta er kennt í Reykjavík og ekkert námskeið alveg í bígerð þegar ég átti lausan tíma til að skella mér suður. En hún Ásta Valdimarsdóttir, hláturjógakennari, var svo elskuleg að sérsníða námskeið fyrir mig þegar ég var á ferðinni suður og nú ég ég komin með leiðbeinandréttindi í hláturjóga upp á vasann og þegar um hægist hjá mér í öðrum verkum ætla ég að slá til og fara að nýta mér þessa þekkingu og miðla til annarra. Því ég er sannfærð um að jákvæðni, gleði og hlátur geti bætt lífið og tilveruna svo um munar,“ segir Hildur þegar Austurfrétt heyrði í henni.
Alltaf nóg að gera
En hvað er hún að sýsla núna? „Það er alltaf nóg að gera. Þessa dagana er ég aðallega að sýsla við störfin mín tvö, börnin mín fjögur, gæludýrin þrjú, eiginmanninn eina og bara almennt að njóta aðventunnar,“ segir hún brosandi. En Hildur er í yfirheyrslu þessa vikuna.
Fullt nafn: Hildur Bergsdóttir
Aldur: 36 ára
Starf: Framkvæmdastýra UÍA, og sjálfstætt starfandi félagsráðgjafi
Maki: Freyr Ævarsson
Börn: Mikael Máni, Rafael Rökkvi, Gabríel Glói og Tekla Tíbrá Freysbörn
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Þeir eru margir í uppáhaldi en Hallormsstaðaskógur, stendur upp úr. Sumarið 2004, þá búsett í Reykjavík, fór ég í útilegu í Hallormaskóg og heillaðist algjörlega af staðnum, þegar við rykktum upp tjaldhælunum og tygjuðum okkur til heimferðar þá hugsaði ég með mér „hér gæti ég hugsað mér að búa.“
Við fjölskyldan bjuggum í Reykjavík þar sem við Freyr vorum bæði í námi en borgarlífið átti ekki við okkur og við ákváðum það að fyrstu stöðuna sem við sæjum auglýsta úti á landi og hentaði okkar menntum myndum við sækja um. Og það fyrsta sem dúkkaði upp var félagsráðgjafastaða á Fljótsdalshéraði svo rúmu ári frá útilegunni góðu, var ég flutt á Hafursá sem er næsti bær við Hallormstaðaskóg og þar er ég búin að eiga margar skemmtilegar og stórar stundir síðan, fermingarathöfn elsta stráksins míns, brúðkaupið okkar Freys og nafngjöf litlu stelpunnar minnar fóru öll fram í skóginum undir björkunum, í sólskini, við fuglasöng og lækjarnið.
Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Epli, smjör og mjólk
Hvaða töfralausn trúir þú á? Gleði og jákvæðni
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Sko, annars vegar er það grænmetisréttur sem mér hamfarakokkinum tekst stundum að galdra fram og hinsvegar hinn þjóðlegi matur soðin ýsa, með kartöflum, smjöri og dass af tómatsósu. Dálæti mitt á þeim rétti hefur fylgt mér frá því að ég mataðist með smekk!
Ef þú ætlar að tríta þig vel, hvað gerir þú? Þegar ég vil gera vel við mig þá er efst á blaði skemmtileg hreyfing í fallegri náttúru, það jafnast fátt á við að hlaupa vænan hring í snotrum skógi eða ganga á mikilfengleg fjöll. Í kjölfarið væri frábært að eiga samveru með skemmtilegu fólki og svo góða bók að lesa.
Hvernig líta kosífötin þín út? Ég er nú voða lítið fyrir að vera kyrr og hafa það kósý! En mér líður best í íþrótta eða útivistarfötum, sérstaklega ef ég er á leið í einhverja hreyfingu eða útivistarævintýri í þeim.
Hvað bræðir þig? Einlægni og fallegt bros.
Hver er uppáhalds skyndibitinn þinn? Ég er lítið fyrir hinn eiginlega skyndibitamat en finnst nú engu síður gott að grípa mér eitthvað í skyndi þá verður eitthvað gott boozt eða ávöxtur fyrir valinu.
Hver er uppáhalds liturinn þinn? Bara allir sterkir og skærir litir.
Hver er uppáhalds bókin þín? Úff! Mér finnst rosalega gaman að lesa bækur og þær eru svo ótal ótal margar sem ég gæti talið upp, en dálæti mitt á Astrid Lindgren hefur fylgt mér frá því að ég opnaði Línu langsokk í fyrsta sinn....og ákvað að verða eins og hún. Síðar ákvað ég að feta í fótspor Ronju ræningjadóttur.
En þó að það hafi gekk ekki gengið eftir er ég Astrid ákaflega þakklát fyrir að hafa gefið okkur sinn töfrandi sagnaheim og þær skemmtilegu, litríku og sterku kvenpersónur sem ég las um af kappi þegar ég var að alast upp. En ég held mikið upp á Jón Kalman, Vigdísi Grímsdóttur, svo á bókin „Uppvöxtur litla trés“ sérstakan sess í hjarta mér. Afi minn skrifaði líka um mig bókina „Hildur og ævintýri hennar“ sem er vitaskuld í uppáhaldi.
Hvert er uppáhalds lagið þitt? Akkúrat núna er ég farin að raula jólalögin og þá brýst ég ýmist í söng í laginu „Vindur já dansaðu vindur“ sem Eyör Páls syngur svo miklu betur en ég, að ég ætti nú bara að láta hana um það eða í laginu „Klukkur um jól“ sem Síminn gerði að sínu í auglýsingu um árið.
Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Knús og kúr með grislingunum mínum í morgunsárið, koma svo liðinu á leikskólann og skólann, helst hjólandi það er best, en sá ferðamáti hefur aðeins undan látið núna í kulda og myrkri, svo drífa sig í vinnuna og takast á við þau verkefni sem þar bíða, ég stekk gjarnan í einhverskonar hreyfingu ef færi gefst yfir daginn, svo þegar skóla og vinnu lýkur taka við samverustundir með fjölskyldunni, samhliða daglegu amstri, smá prjón og kannski einn kafli í góðri bók.
Hvað er best við jólin? Gera sér dagamun með þeim sem manni þykir vænst um og njóta þess að vera til innan um öll ljósin í myrkrinu. Við eigum okkur einn mjög skemmtilegan jólasið, þar sem ég er lítið fyrir að sitja kyrr og borða kökur þá bjuggum við ásamt vinum okkar til jólaboð, þar sem við hittumst inní Hallormsstaðskógi einhvern jóladaganna, með skíði og snjóþotur og svo renna ungir sem aldnir sér af hjartans lyst, fara í snjókast og leika sér af lífi og sál. Svo setjumst við saman yfir heitan kakóbolla og smákökur undir trjánum. Það er fátt betra en það!
Mynd: Hildur með yngsta barnið sitt Teklu Tíbrá.