Aðventa lesin á sunnudag - aflýst!

adventa ggFrá árinu 2005 hefur Gunnarsstofnun staðið fyrir upplestri á Aðventu Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklaustri og unnið að því að breiða þá hefð út. Til stóð að sagan yrði lesin í tíunda sinn á Klaustri á sunnudag en því hefur verið frestað vegna veðurs. Sagan verður hins vegar lesin víða um land.

Aðventa verður lesin í Gunnarhúsi á Dyngjuvegi 8 hjá Rithöfundasambandi Íslands á sunnudag eins og undanfarin ár. Þar les Guðrún Ásmundsdóttir leikkona söguna og hefst lesturinn hálftíma fyrr, kl. 13.30.

Gunnar Gunnarsson skrifaði nóvelluna Aðventu árið 1936 og kom hún út í fyrsta sinn það ár. Síðan þá hefur sagan um Benedikt, Eitil og Leó verið lesin víðsvegar um heiminn af milljónum manna, ekki síst í desember.

Aðventa er það verk Gunnars sem þýtt hefur verið á flest tungumál og selst í stærstum upplögum. Hún kemur reglulega út í Þýskalandi hjá Reclam forlaginu og selst í allt að 2000 eintökum á ári enn þann dag í dag.

Árið 2013 kom hún út í nýrri þýðingu á rússnesku og nýverið samdi Gunnarsstofnun um útgáfu verksins á spænsku og ítölsku.

Undanfarin ár hefur Aðventa verið lesin á þýsku hjá íslenska sendiráðinu í Berlín og fór sá lestur fram á fyrsta sunnudegi í aðventu í ár að viðstöddum á annað hundrað áheyrendum.

Í Moskvu munu íslenska sendiráðið og ODRI vináttufélag Íslands og Rússlands standa fyrir upplestri 12. desember og íslenski söfnuðurinn í Osló les söguna þann 10. desember. Þá verður sagan lesin á Icelandair hótelinu á Akureyri 11. desember.

Og fyrir þá sem ekki komast á neina af þessum upplestrum verður Aðventa Gunnars Gunnarssonar útvarpssagan á Rás 1 fyrir jólin eins og komin er hefð á, og sögulok lesin síðdegis á aðfangadag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar