Fylgst með rannsóknum á halastjörnu í Breiðdalssetri

christa martin breiddalssetur 0072 webÍ jarðfræðisetrinu Breiðdalssetri er þessa dagana fylgst náið með rannsókn evrópsku geimrannsóknastofnunarinnar ESA á halastjörnunni 67P. Markmið leiðangursins er meðal annars að rannsaka upphaf lífs á jörðinni.

„Við höfum ekki vitað úr hverju halastjörnur eru gerðar en það er akkúrat það sem er verið að rannsaka og því fylgjumst við með," segir Martin Gasser, sérfræðingur hjá setrinu.

Talið er að loftsteinar séu álíka gamlir og Jörðin en halastjörnurnar eru enn eldri og innihalda því væntanlega meira frumefni. Það gerir þær enn áhugaverðari til rannsókna.

Tíu ár er síðan ESA skaut á loft geimfarinu Rósettu. Hún náði til halastjörnunnar Churyumov–Gerasimenko eða 67P þann 6. ágúst. Með um borð var könnunarfarið Philae og því tókst að koma niður á halastjörnuna þann 12. nóvember.

Ein af kenningunum um uppruna lífs á Jörðinni er sú að vatn hafi borist hingað með halastjörnum. Vísindamenn ESA birtu í gær grein sem byggir á gögnum frá 67P þar sem þeir halda því fram að svo sé ekki. Í halastjörnum virðist vatn en það sé ekki eins og það sem sé á Jörðinni.

Í Breiðdalssetri eru gerðar aðgengilegar myndir og upplýsingar um leiðangurinn sem uppfærðar verða eftir því sem ESA opinberar sín gögn. „Við höfum kennt stjörnufræði í skólunum og við erum búin að setja upp vegg um Rósettu," útskýrir Martin.

Rósetta er á sporbaug með halastjörnunni og gert er ráð fyrir að upplýsingar þaðan berist til Jarðarinnar næsta árið. „Það verður áhugaverðar þegar halastjarnan nálgast sólina næsta sumar. Þá byrjar hún að gufa upp og breytast og allar þær breytingar verða mældar."

Sýning Breiðdalsseturs er opin fyrir skólahópa en einnig er hægt að óska eftir að koma og fá að skoða hana.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar