Silla í jólalagakeppni Rásar 2: Fékk mikla hvatningu frá strákunum mínum
![Silla](/images/Silla.jpg)
Sigurlaug Jónsdóttir, eða Silla eins og hún er alltaf kölluð hefur ekki langt að sækja tónlistarhæfileikana. Hún er dóttir Jóns Arngrímssonar Borgfirðings og tónlistarmanns á Héraði. Og bróðir hennar Prins Grímsson (Óli Rúnar Jónsson) þekkja margir, en hann hefur líka verið viðloðandi tónlist um langt skeið.
Silla byrjaði snemma að syngja inn á plötur með pabba sínum auk þess að hún var virkur þátttakandi í tónlistarlífinu í Fellabæ á sínum unglingsárum. Hún vann meðal annars lagasamkeppni LungA árið 2003 og Barkann 2004.
Nú eins og Gleðisveitin Döðlur, skýtur hún upp kollinum í úrslitum jólalagakeppni Rásar 2. Hvað kemur til? „Ég er búin að vera að íhuga að taka þátt í nokkur ár og gert nokkrar tilraunir til að setja saman jólalag, en ég lét aldrei verða að því,“ segir Silla í samtali við Austurfrétt.
Lagið sem Silla sendi inn í keppnina heitir, ferðalag á jólanótt. „Kærasti minn Sindri Þór samdi textann við þetta lag fyrir rúmum tveimur árum. Hann lét mig fá hann á sínum tíma og hvatti mig til að gera lag við textann. Ég dúllaði eitthvað við það, en ég á það til að mikla fyrir mér hlutina og á tíðum er ég með mikla frestunar áráttu svo ég missti alltaf af skilafrestinum síðustu tvö ár.
Stutt í skilafrest
Svo var það bara þannig að kærastinn minn er staddur við hliðina á mér þegar við sáum skjáauglýsingu um jólalagakeppnina rúmlega viku fyrir skilafrest, og hann segir „ætlarðu ekki að drífa þig í að klára þetta núna?“ og ég ákvað að gera það. Óli bróðir var lengi búinn að vera að hvetja mig til að koma í stúdeóið heima hjá honum að gera eitthvað. Svo ég dreif mig til hans, ekki seinna en vænna, enda stutt í skilafrest,“ segir Silla.
„Ég, Óli og Sindri vorum fram yfir miðnætti þrjú kvöld í röð til að klára þetta. Fyrst ætlaði ég að vera bara með einn gítar og eina rödd. En Óli sem er miklu reyndari í þessu ráðlagði mér frá því og þetta varð alltaf miklu miklu meira.Hann sá um undirspil, mix og allt saman. Þetta var svo ekkert mál þegar við vorum komin af stað. Enda héldu þeir vel utan um mig og hvöttu mig áfram.“
Plata fyrir þrítugt
Silla starfar sem markaðsráðgjafi á auglýsingastofunni Pipar í Reykjavík og á hún von á sínu fyrsta barni. En ætlar hún að fara að sýsla meira í tónlist? „Ég er alltaf með hugann við tónlistina, en hef ekki verið að gera neitt að ráði. Ég hélt eina sólótónleika í fyrra en lagðist svo í dvala. Markmiðið er alltaf að vera komin með efni í plötu fyrir þrítugt. Ég á tvö ár í það. Ég gef mér kannski tíma þegar krílið er komið til að fara að sinna þessu meira. Hver veit.“
Léttir að koma þessu frá mér
En hvernig heldurðu jólalagakeppnin fari? „Ég held að Döðlujólin eigi eftir að gera það gott. Þeir eiga svo marga aðdáendur fyrir austan frá því í gamla daga. Ég var meira að segja alltaf að söngla lögin þeirra í samfloti með Óla bróður. En hvað ferðalag á jólanótt varðar, þá skiptir engu máli hvað gerist núna. Ég loksins lét verða að því að taka þátt með hvatningu strákanna minna og það er mikill léttir,“ segir Silla að lokum.
Hægt er að kjósa lögin í keppninni til 18. desember . En þann 19. verður loks tilkynnt hvaða lag sigrar og verður útnefnt Jólalag Rásar 2 árið 2014.
Hlusta á lag og kjósa HÉR
Mynd: Aldís Fjóla Borgfjörð