Flugvélarnar fullar af farangri og fullar af pökkum
![pall johann kristinsson flugfelag des14 0001 web](/images/stories/news/folk/pall_johann_kristinsson_flugfelag_des14_0001_web.jpg)
„Flugvélarnar sem koma eru fullar af farangri og fullar af pökkum. Það er óhætt að segja það," segir Páll Jóhann Kristinsson sem stóð vaktina á flugvellinum á Egilsstöðum þegar Austurfrétt leit þar við í dag.
Páll Jóhann segir strauminn liggja austur, menn séu koma heim í jólafríið en færri fari af svæðinu.
Fimm ferðir voru farnar í dag, fimm verða farnar á morgun og ein að morgni aðfangadags. Þá var einnig nóg að gera í gær því aðeins ein ferð var farin af þremur áætluðum á laugardag vegna veðurs.
„Það má ekkert út af bregða í þessu," segir Páll. Veðurspáin er hins vegar þokkaleg fyrir næstu daga og útlit fyrir að allt og allir komist á áfangastað fyrir jól.