Flugvélarnar fullar af farangri og fullar af pökkum

pall johann kristinsson flugfelag des14 0001 webStarfsmenn Flugfélags Íslands hafa haft í nógu að snúast síðustu daga. Margir hafa komið austur í jólafríið auk þess sem ættingjar og vinir nýta flugið til að koma jólapökkunum hratt til skila.

„Flugvélarnar sem koma eru fullar af farangri og fullar af pökkum. Það er óhætt að segja það," segir Páll Jóhann Kristinsson sem stóð vaktina á flugvellinum á Egilsstöðum þegar Austurfrétt leit þar við í dag.

Páll Jóhann segir strauminn liggja austur, menn séu koma heim í jólafríið en færri fari af svæðinu.

Fimm ferðir voru farnar í dag, fimm verða farnar á morgun og ein að morgni aðfangadags. Þá var einnig nóg að gera í gær því aðeins ein ferð var farin af þremur áætluðum á laugardag vegna veðurs.

„Það má ekkert út af bregða í þessu," segir Páll. Veðurspáin er hins vegar þokkaleg fyrir næstu daga og útlit fyrir að allt og allir komist á áfangastað fyrir jól.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar