Boða til Hreindýramessu á Héraði: Viljum gera sýnilegra það sem gert er við dýrin
![hreindyr vor08](/images/stories/news/umhverfi/hreindyr_vor08.jpg)
„Við höfum talað um það í mörg ár að gera meira úr útdrættinum og ákváðum nú að láta verða af því," segir Þórhallur Borgarsson, hreindýraleiðsögumaður, sem haft hefur veg og vanda að undirbúningnum.
Messan verður í Sláturhúsinu þann 21. og 22. febrúar. Dregið verður þann 21. og verður drátturinn sýndur á stórum skjá á messunni.
Meðal annars stendur til að halda villibráðarveislu, sýna muni sem unnir eru úr hreindýrum og sýndar kvikmyndir sem tengjast hreindýrum.
„Við viljum vekja athygli á því menningarfyrirbrigði sem hreindýr og hreindýraveiði eru á Austurlandi og gera það sýnilegra sem gert er við þau á svæðinu. Ég veit ekki hvort fólk geri sér grein fyrir að þetta er atvinnugrein sem veltir 250-300 milljónum á svæðinu árlega."
Leyft er að veiða 1412 dýr næsta sumar en kvótinn hefur aldrei verið meiri. Undanfarin ár hafa þrefalt fleiri sótt.
Fleiri viðburðir sem tengjast hreindýrum eru framundan en á Minjasafni Austurlands er verið að setja nýja grunnsýningu sem ber yfirskriftina „Hreindýr og menn: sambúð manna og hreindýra á Austurlandi."
Fyrir hana er leitað að Brno-riffli með Jena-sjónauka sem Samband íslenskra samvinnufélaga flutti inn á sínum tíma og var seldur víða um land.