Adda Steina í yfirheyrslu: Með eindæmum hve Fljótsdalshérað og fólkið hér hefur tekið vel á móti mér
Eins og kom fram á Austurfrétt í liðinni viku er Adda Steina Haraldsdóttir nýráðin tómstunda- og forvarnafulltrúi hjá Fljótsdalshéraði. Hún er fædd og uppalin í Reykjavík en maðurinn hennar er héðan að austan, nánar tiltekið úr Jökulsárhlíð. Adda Steina tók við nýja starfinu um miðjan janúar og er nýflutt með fjölskyldu sinni í Fellabæ.„Ég er alveg ótrúlega ánægð með nýja starfið, nýja heimilið og allt nýja fólkið sem ég er að kynnast. Það er með eindæmum hve Fljótsdalshérað og fólkið hér hefur tekið vel á móti mér og minni fjölskyldu.
Það er nóg að gera þessa dagana, en auk þess að koma mér inn í nýja starfið hef ég verið að vinna að því að koma okkur fyrir á nýja heimilinu, enda ýmislegt sem þarf að gera þegar maður ákveður að flytja hinum megin á landið með hálfs mánaðar fyrirvara. En þetta er allt að smella saman með hjálp frá góðu fólki,“ segir Adda þegar Austurfrétt hafði samband við hana til að vera með í yfirheyrslu þennan föstudaginn.
Fullt nafn: Adda Steina Haraldsdóttir
Aldur: 27 ára
Starf: Tómstunda- og forvarnafulltrúi
Maki: Fannar Ingi Veturliðason
Börn: Tvö maíbörn, Dagur (2010) og og Agla Ýrr (2014)
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi?
Ég er voða skotin í Borgarfirði eystri þó ég hafi nú ekki eytt miklum tíma þar
Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum?
Lýsi, (ungbarna) pela og Hámark með súkkulaðibragði.
Hvaða töfralausn trúir þú á?
Lesa bækurnar hennar Siggu Klingenberg og fara eftir hennar ráðleggingum. Þá vegnar manni vel í lífinu.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Sushi, fyrir utan saltkjöt og baunir hjá ömmu á sprengidag.
Ef þú ætlar að tríta þig vel, hvað gerir þú?
Skipulegg „Day of fun“ með vinkonum mínum. Ofur góður og skemmtilegur dagur sem inniheldur meðal annars eitthvað sprikl, sushi-át, ís og mikinn hlátur.
Hvernig líta kosífötin þín út?
Rauðu Joe boxer broskallanáttbuxurnar mínar eru í miklu uppáhaldi.
Hvað bræðir þig?
Þegar börnin mín hafa ótakmarkaða trú á hæfileikum mínum og getu.
Hver er uppáhalds skyndibitinn þinn?
Serrano. Ég lofa því að vera dyggur viðskiptavinur ef einhver er að íhuga að opna einn slíkan á Egilsstöðum.
Hvert er uppáhalds lagið þitt?
Síðast liðið ár hefur það verið Thinking Out Loud með Ed Sheeran
Hvernig er týpískur dagur hjá þér?
Þessi venjulegi húsmæðradagur held ég bara: vinnan, heimilisstörfin, æfing, samvera með fjölskyldunni og Dr. Phil. Næ ekki alveg alltaf að gera allt sem ég þarf að gera yfir daginn en ég reyni nú að láta það ekki bitna á Dr. Phil.
Í hverju felst nýja starfið þitt?
Það má segja að það sé tvíþætt, en þó ennþá að mótast að einhverju leyti.
Annars vegar sé ég um VegaHúsið (ungmennahús sem er staðsett í Sláturhúsinu á Egilsstöðum) og hins vegar kem ég að málum sem snúa að tómstundum og forvörnum barna og ungmenna á breiðum grunni í samstarfi hina ýmsu aðila í héraðinu til dæmis eru það, félagsmiðstöðvarnar, ungmennaráð og skólarnir. Ég hlakka allveg ótrúlega mikið til að takast á við þau verkefni sem berast mér í hendur í þessu starfi og þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri á því.
Endilega allir, bæði ungir og aldnir, sem telja sig hafa erindi tengd mínum málaflokki beint eða óbeint sendið mér tölvupóst á netfangið addasteina (at) egilsstadir.is. Það er ýmislegt sem mér er listanna lagt í þessum málum. Alls ekki hika við það .