Leita að 80 Austfirðingum til að leika í Ófærð

trapped webTökulið spennuþáttanna Ófærðar leita nú að um 80 Austfirðingum í aukahlutverk þegar atriði í þættina verða tekin upp á Seyðisfirði í næsta mánuði. Tökur á þáttunum hófust á Siglufirði í vikunni.

„Við munum taka upp senur sem tengjast Norrænu og höfninni á Seyðisfirði," segir Sigurjón Kjartansson sem hefur yfirumsjón með gerð þáttanna í samtali við Austurfrétt.

Tekið verður upp á Seyðisfirði dagana 16. – 20. febrúar en von er á ferjunni þriðjudaginn 17. febrúar og stoppar hún í tvo daga. Ekki verður myndað inni í ferjunni en við landganginn auk þess sem löng bílaröð verður mynduð fyrir utan.

„Við viljum höfða til bæjarbúa um hvort þeir vilji ekki vera með í þessu stórvirki. Við þurfum helst fá 80 manns og sem flesta á bílum því við þurfum að mynda biðröðina. Þetta verða miklar maraþontökur hjá okkur í tökuliðinu."

Þekktur danskur leikari, Bjarne Henriksen, sem meðal annars lék fjármálaráðherrann í þáttunum Borgen auk þess sem hann fór með hlutverk Theis Birk Larsen í fyrstu röðinni af Forbrydelsen leikur Carlesen skipstjóra.

Hann verður hins vegar ekki á Seyðisfirði því innitökurnar verða um borð í varðskipinu Þór í Reykjavíkurhöfn. Útisenurnar eru að auki teknar upp á Siglufirði og hófust tökur þar í byrjun vikunnar.

„Við áætlum að tökur taki 85-90 daga þar af er helmingurinn í innitökur í Reykjavík," segir Sigurjón sem er ánægður með aðstæður á Siglufirði.

„Við völdum bæinn því við töldum okkur trygga með snjó. Til þessa höfum við fengið það sem við þurfum. Það er eins og veðurguðirnir hafi lesið handritið."

Tökulið þáttanna telur 50-70 manns með leikurum þannig búast má við stórum hóp austur. Þáttagerðin er með þeim stærri sem Íslendingar hafa ráðist í en sýningar þáttanna, sem verða tíu talsins, hefjast á RÚV upp úr næstu áramótum. Sýningarrétturinn hefur þegar verið seldur til Þýskalands, Frakklands og Norðurlandanna.

Þeir sem hafa áhuga á að gerast aukaleikarar á Seyðisfirði geta haft samband við Stellu Bieltvedt hjá RVK Studios í síma 825-1711 eða netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar