Blendnir dómar um Fortitude: Umhverfið fangar áhorfendur á meðan sagan kemst á réttan kjöl

rfj fortitude 0014 webFyrsti þáttur spennuþáttanna Fortitude, sem teknir voru upp á Austurlandi í fyrra, fær blendnar viðtökur erlendra gagnrýnenda. Söguþráðurinn er víða sagður of flókinn og losaralegur eða þáttinn beinlínis leiðinlegan á meðan aðrir hrífast af fjölbreytninni og umhverfinu.

Verstu útreiðina fá þættirnir hjá gagnrýnanda The Irish Independent sem virðist hafa drepleiðst meðan hann horfði á fyrsta þáttinn sem sendur var út síðasta fimmtudagskvöld.

Hann ráðleggur áhorfendum að hafa mikla þolinmæði og nokkra bolla af rótsterku iðnaðarkaffi. „Það er ekki ofsögum sagt að hlutirnir gerist hægt í Fortitude" skrifar hann undir fyrirsögninni: „Úrvals leikarar í stórkostlegu umhverfi - synd að það sé álíka spennandi og að horfa á ís bráðna."

Þá snýr hann út úr slagorði þáttanna um að Fortitude sé öruggasta stað Jarðar og kallar hann „einnig þann leiðinlegasta."

Óttast að áhorfendur snúi sér annað

Breska stórblaðið Daily Telegraph spyr hvort handritshöfundarnir hafi verið að merkja við á gátlista. Hætt sé við að áhorfendur snúi sér annað verði fókusinn ekki skerptur fljótt. Þátturinn fær þar þrjár stjörnur af fimm.

Sumir rýnar hafa fengið að sjá fleiri þætti. Þeirra á meðal er gagnrýnandi New York Times sem segir að rannsóknin sé vart hafin þegar komið sé fram í miðja þáttaröð. Hann nær lítilli tengingu við persónur þáttanna og sumar sögurnar gangi í berhögg við heilbrigða skynsemi. Gagnrýnandi Variety er heldur ekki hrifinn og segir að þegar á líði þáttaröðina verði söguþráðurinn beinlínis pirrandi.

Bornir saman við aðra norðurslóðaþætti

Þættirnir eru eðlilega bornir saman við aðra spennuþætti, til dæmis Broadchurch sem nutu mikilla vinsælda í Bretlandi í fyrra, Fargo sem gerast á köldum og fáfornum slóðum í Bandaríkjunum, Twin Peaks og hina dönsku Forbrydelsen. Fortitude virðist tilraun Breta til að spreyta sig á sviði vinsælla norrænna glæpasagna auk þess sem Sofie Gråböl fer með stórhlutverk í báðum þáttaröðunum.

Einn þeirra sem ber þættina saman við Forbrydelsen er gagnrýnandi The Guardian sem segir Fortitude djarfa en dæmda tilraun til að reyna að berjast fram á norrænum slóðum. Þá vanti mannlegu hliðina sem hafi verið svo ráðandi í Forbrydelsen.

„Eins og atriði úr framandi heimi"

Aðrir eru hins vegar jákvæðari. Meðalskor þáttanna á IMDB er 7,9 og 75/100 á vefnum Metascore sem safnar gagnrýni víða að.

Gagnrýnandi AV Club gefur þáttunum A í einkunn, hrósar þeim fyrir fjölbreytnina og heldur vart vatni yfir umhverfinu. „Umhverfið sem er myndað er hrollkalt en algjörlega stórkostlegt."

Hjá Vox fær þátturinn jákvæða umsögn fyrir góð samtöl, landslagið og birtuna. „Þið hafið aldrei séð þátt sem lítur út eins og Fortitude. Hann er tekinn upp á Íslandi og víðerni landsins eru notuð í atriði sem eru eftirminnileg fyrir umhverfið.

Ljósaskiptin eru sérstaklega vel nýtt, sérstaklega þar sem hinn endalausi snjór virðist gleypa í sig alla birtu þegar sólin er loks sest. Maður fær því á tilfinninguna að þátturinn sé tekinn upp fjarrænum heimi og það eykur aðeins á einangrunina."

Washington Post gefur þættinum B- og gagnrýnir hann fyrir losaralegan söguþráð en hann megi þola út af umhverfinu. „Frosið umhverfið hefur nógu kraftmikið aðdráttarafl til að halda athygli áhorfandans á meðan sagan kemst á réttan kjöl."

Umhverfið eins og ein persóna í viðbót

Hjá Daily Mirror fær þátturinn 4/5 í einkunn. Bent er á að þátturinn sé ruglingslegur framan af og heldur lengi þurfi að bíða eftir fyrsta líkinu en umhverfið virki eins og auka persóna. „Það er magnþrungið en gegnir hlutverki við að halda sögunni gangandi."

Eins og margir aðrir kvartar rýnir Philadelpia Inquirer undan ruglingslegum söguþræði en segir Fortitude samt „heillandi ráðgátu í stórkostlegu umhverfi."

Gagnrýnandi Los Angeles hrósar handritshöfundinum fyrir að fara ekki hefðbundnar og ódýrari leiðir þrátt fyrir að vera með dýrt leikaralið og segir næturhimininn yfir Fortitude „yfirnáttúrulegan."

Rýnir HotFix viðurkennir að hafa týnt söguþræðinum þrisvar sinnum í fyrstu fimm þáttunum, en það virðist hafa verið því hann hafi gleymt sér í landslaginu.

„Verðmæti þess að taka þættina upp á Íslandi verður ekki ítrekað nóg. Þótt landið liggi ekki jafn norðarlega og hinn ímyndaði staður á að vera er fegurð og ógn staðarins til staðar í hverju einasta skoti þannig að jafnvel hefðbundnustu senur verða að einhverju nýju og framandi."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar