Milljarður rís á Seyðisfirði á morgun
![milljardur ris 2015](/images/stories/news/2015/milljardur_ris_2015.png)
Fleiri konur deyja eða tapa heilsu vegna ofbeldis heldur en vegna krabbameins, umferðaslysa, HIV og malaríu ár hvert
Milljarður rís er einn stærsti viðburður í heimi. Í fyrra tóku 3.000 Íslendingar þátt í dansinum í Reykjavík, Ísafirði, Seyðisfirði og Akureyri ásamt milljónum manna um heim allan.
UN Women hvetur alla til að taka þátt í Milljarður rís og mæta með Fokk ofbeldi- armbandið og bera það með stolti á meðan dansinn dunar. Fokk ofbeldi armbandinu er ætlað að vekja fólk til vitundar um útbreiddasta mannréttindabrot í heiminum í dag: kynbundið ofbeldi.
Samtökin skora jafnframt á vinnustaði og skóla til að mæta og sýna þolendum ofbeldis samstöðu og dansa gegn kynbundnu ofbeldi.
Dansinn hefst stundvíslega klukkan 12 í félagsheimilinu Herðubreið. Plötusnúðarnir Jónatan og Lasse, stjórnendur Lunga-skólans munu sjá til þess að þakið rifni af húsinu.
Staðreyndir um kynbundið ofbeldi
• 600 milljónir kvenna búa í löndum þar sem heimilisofbeldi er ekki refsivert
• 3.600 konum er nauðgað í Suður Afríku á hverjum einasta degi
• 40-50% af konum á evrópska efnahagssvæðinu hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað
• Líklegra er að íslensk stúlka í 10.bekk á Íslandi hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni heldur en að hún reyki
• Helmingur allra kvenna sem drepnar voru árið 2012 voru drepnar af maka/fyrrverandi maka, kærasta/fyrrverandi kærasta eða fjölskyldumeðlim.
• 64 milljónir stúlkna undir 18 ára aldri hafa verið þvingaðar í hjónaband um heim allan. Það eru 39 þúsund stúlkur á hverjum einasta degi eða ein á þriggja sekúndna fresti. Af þessum sökum er mæðradauði helsta dánarorsök unglingsstúlkna á aldrinum 15-19 ára í þróunarlöndum.
• 140 milljónir stúlkna hafa þurft að þola afskurð á kynfærum sínum