Hreindýramessa og dregið um hreindýraveiðileyfi á morgun
Ríflega 3600 umsóknir bárust um hreindýraveiðileyfi í ár en frestur til að sækja um rann út í vikunni. Dregið verður um leyfinu á morgun. Þá verður í fyrsta sinn haldin hreindýramessa á Héraði.Í ár er heimilt að leyfa 1412 dýr, 630 tarfa og 782 kýr og hefur kvótinn aldrei verið meiri. Alls bárust 3673 umsóknir um leyfi, þar af 3636 gildar.
Alls eru 98 veiðimenn á svonefndum fimm skipta lista. Hafi veiðimaður ekki fengið úthlutað leyfi fimm ár í röð fer hann í forgang á biðlista fái hann ekki úthlutað þegar dregið er í sjötta skipti.
Allir sem sækja um fá úthlutað handahófskenndu númeri í útdrættinum sem getur verið á bilinu 1 til 100.000. Þeir sem fá lægstu númerin ganga fyrir í útdrættinum á hverju veiðisvæði fyrir sig. Ef kvótinn hljóðar upp á 100 dýr á svæðinu eru það einfaldlega þeir sem eru með 100 lægstu númerin sem fá veiðileyfi. Röð á biðlista ræðst af sama fyrirkomulagi.
Í ár er sú breyting að greiða þarf veiðileyfið að fullu ekki síðar en 15. apríl. Tilgangurinn er að hægt sé að byrja fyrr að úthluta veiðileyfum af biðlista.
Allir sem fá úthlutað hreindýraveiðileyfi þurfa einnig að standast skotpróf fyrir 1. júlí en heimilt er að reyna þrisvar sinnum við skotprófið. Standist menn ekki skotprófið er veiðileyfinu úthlutað til næsta manns á biðlista.
Dregið verður á morgun klukkan 14:00 í Menntaskólanum á Egilsstöðum en hægt verður að fylgjast með drættinum í beinni útsendingu á vef Umhverfisstofnunar.
Þá ætla áhugasamir að hittast í Sláturhúsinu á Egilsstöðum þar sem blásið verður til hreindýramessu í fyrsta sinn en hún hefst á útdrættinum.
Þar verða einnig um helgina kynningar frá söluaðilum veiðibúnaðar, sýningar á kvikmyndum sem tengjast hreindýraveiðum, munir og minjar til sýnis auk þess sem sérfræðingar kynna vinnu sína en meðal þeirra er Reimar Ásgeirsson sem fjallar um uppstoppun á dýrum.