Málþing um lífsstíl í Fjarðabyggð: Erum fyrst og fremst að búa til betra samfélag

malthing vaÁ morgun laugardag 7. mars verðu haldið málþing í Nesskóla í Neskaupstað. Um er að ræða skemmtilegt og fróðlegt málþing um heilbrigðan lífsstíl með áhugaverðum fyrirlesurum og kynningarbásum.

Á jákvæðu nótunum

Málþingið sem kallast „Á jákvæðu nótunum“ er haldið í samvinnu Verkmenntaskóla Austurlands, Fjölskyldusviðs Fjarðabyggðar og foreldrafélögum VA og Nesskóla.

„Við héldum svona málþing í fyrra og það heppnaðist svo vel að það er vilji til að gera þetta af árvissum viðburði. Í ár er fókusinn á lífsstíl frá hinum ýmsu hliðum,“ segir Margrét Perla Kolka Leifsdóttir, kennari og forvarnarfulltrúi í Verkmenntaskóla Austurlands.

Fjölbreytt dagsrká

Dagskrá málþingsins er vegleg þetta árið. „Við erum við með flotta fyrirlesara og þó nokkra bása sem hægt er að ganga á milli bæði fyrir, eftir og í hléinu til að kynna sér ýmislegt varðandi lífsstíl og fengið fræðslu. Svo erum við með kynningu á allskonar uppbyggilegu efni sem hefur verið gert í skólanum.“

Efnistök fyrirlesara eru eftirfarandi: Betri svefn, grunnaðstoð heilsu, Erla Björnsdóttir. Don't Worry, be happy! Jákvæð sálfræði og vörn gegn streitu, Margrét Perla Kolka Leifsdóttir og Hrönn Grímsdóttir. Ást gegn hatri, Selma Björk Hermannsdóttir og Foreldrar með markmið, Hermann Jónsson.

Betra samfélag

Hver er tilgangurinn með svona málþingi? „Við erum að vinna að forvörnum í Fjarðabyggð. En fyrst og fremst erum við að búa til betra samfélag. Þetta er flott samvinna á milli skólans, nemenda, foreldrar og fjölskyldusviðs en um leið erum við að koma fræðslu út í samfélagið um eitthvað uppbyggilegt því við reynum að ná til breiðs hóps því málþingið er stílað inn á að fá almenning til að koma. Þetta verður allt á jákvæðum nótum, skemmtilegt og gleðilegt og við viljum sjá sem flesta,“ segir Margrét að lokum.

Málþingið fer fram í Nesskóla eins og áður kom fram. Húsið opnar 10:30 og hefst dagskrá kl. 11. Aðgangur er ókeypis og það eru allir velkomnir.

Nánari upplýsingar um málþingið má finna HÉR.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar