Unga nefndin heldur Góugleði: Eins og að setja upp árshátíðina í skólanum
![gougledi bruaras](/images/stories/news/2015/gougledi_bruaras.jpg)
„Þegar tilkynnt var á síðasta blóti um hverjir ættu að kalla saman næstu nefnd fór Halldóra Eyþórsdóttir í Hnefilsdal á svið og sendi út áskorun um að fólk á þessum aldri með tengsl við svæðið tækju að sér viðburðinn. Við skoruðumst ekki undan því," segir Elsa Guðný Björgvinsdóttir, annar tveggja formanna nefndarinnar.
Góugleðin í Brúarási annað kvöld er hin síðasta í röð þorra- og góublóta á Fljótsdalshéraði. Á norðursvæðinu hefur skapast hefð síðustu ár fyrir gleði á Góu fremur en þorra.
„Það eru mörg blót á Héraði og þegar þau eru nokkur á sömu helgi getur verið erfitt að manna blótið. Við erum með stórt blót, um 300 gesti, þannig það kemur vel út að dreifa þessu," segir Elsa.
Hún segir að vel hafi gengið að fá fólk í nefndina. Um 20 manna kjarni hafi haldið henni gangandi en fleiri komi að vinnunni á gleðideginum sjálfum.
Þrátt fyrir ungan aldur nefndarmanna segir Elsa Guðný að blótið verði með nokkuð hefðbundnu sniði. „Það hafa gengið ýmsar sögur eins og það verði ekki þorramatur en þær eru ekki sannar. Auðvitað mótast dagskráin alltaf af þeim sem standa á sviðinu en þetta verður nokkuð hefðbundið."
Áður fyrr voru þrjár nefndir í Jökulsárhlíð og þrjár nefndir á Jökuldal. Þegar blótin þar voru sameinuð var svæðinu skipt upp aftur og þrjár nefndir hafa skipst þar á síðustu ár, auk þess sem brottfluttir hafa verið með annað slagið.
Elsa segir marga af þeim sem eru í nefndinni nú hafa starfað með öðrum nefndum enda sé reyndin sú að margir þeirra búi ekkert á svæðinu í dag.
„Ég held að minnihluti nefndarinnar búi í gömlu hreppunum en við erum flestöll búsett á Héraði. Við erum vön að koma á blót í okkar heimasveit og það sýnir kannski hversu sterk tengslin við heimahagana eru."
Hún segir undirbúninginn hafa fengið vel. „Við vorum flest í Brúarásskóla og það hefur verið gaman að koma aftur í gamla skólann með gömlu skólafélögunum. Við höfum sagt að tilfinningin sé eins og þegar við settum upp árshátíðir á sínum tíma og mamma og pabbi komu til að sjá okkur."
Það eina sem hefur sett strik í reikninginn á lokasprettinum er stórt útkall björgunarsveita á Austurlandi til aðstoðar gönguskíðamönnum á Vatnajökli í dag.
„Við misstum nokkra nefndarmenn í það en við erum orðin nokkuð vel æfð þannig það á ekki að koma að sök. Það eru allir staðráðnir í að halda gott blót á morgun."