„Af því að Palli segir það"

fjarmalavit egs web„Krakkarnir voru mjög áhugasöm og voru duglega að spyrja spurninga", segir Guðmundur Ólafsson, útibússtjóri Arion banka á Egilsstöðum, en hann ásamt Anítu Petursdóttur frá VÍS heimsóttu Egilsstaðaskóla fyrir helgi. Tilefni heimsóknarinnar var að hleypa af stokkunum verkefninu Fjármálavit, en verkefnið er liður í Evrópsku peningavikunni sem hefst í vikunni.

Kristín Lúðvíksdóttir er verkefnisstjóri Fjármálavits sem unnið er af Samtökum fjármálafyrirtækja. „Við höfum fundið mikla eftirspurn eftir kennsluefni um fjármál, bæði frá kennurum, foreldrum og nemendunum sjálfum. Fjármálavit er liður í að mæta þessari eftirspurn. Við höfum þróað efnið í allan vetur en kennslustundin samanstendur af myndböndum um fjármál og verkefnum sem nemendur leysa í kjölfarið."

Páll Óskar Hjálmtýsson er verndari verkefnisins en hann hefur lært á eigin skinni mikilvægi þess vera skynsamur í fjármálum. Í myndböndunum sem sýnd leika hinir ungu og efnilegu Arnór Björnsson og Óli Gunnar Gunnarsson, úr leikritinu Unglingurinn, sem sló í gegn i Gaflaraleikhúsinu í fyrra, auk Andreu Marín, sem lék Viggu í þáttunum Fólkið í blokkinni sem sýndir voru á RÚV.

Heimsóknin til Egilsstaða er byrjunin á röð heimsókna þar sem farið verður í grunnskóla um allt land. En um hvað spurðu krakkarnir? Guðmundur segir að þegar nemendurnir voru spurðir hvers vegna þau ættu að sýna skynsemi í fjármálum stóð ekki á svari. „Af því að Palli segir það."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar