Gáfu sjúkrahúsinu á Seyðisfirði tólf rúm
Tólf rafdrifin sjúkrarúm sem Hollvinasamtök sjúkrahússins á Seyðisfirði hafa safnað fyrir voru nýverið afhent formlega. Söfnunarátakið hófst árið 2013 og lauk um síðustu áramót.Verkefninu var hrundið af stað eftir aðalfund hollvinasamtakanna árið 2013 en takmark þess var að endurnýja sjúkrarúm sjúkrahússins.
Á miðvikudag voru rúmin tólf, sem kosta samanlagt 6,6 milljónir, afhent formlega. Eins fylgdu með smærri gjafir svo sem hóstavél, stuðningsdýnur og fleira.
Þorvaldur Jóhannsson, formaður samtakanna, tilkynnti við það tækifæri að þeim hefði borist höfðingleg peningagjöf úr dánarbúi velunnara HSSS, Guðna Kristjónssyni, sem lést í október 2012.
Þá hafa samtökin samþykkt að stuðningur þeirra verði áfram að bæta og létta starfsfólki og skjólstæðingum þeirra starfið og dvölina á sjúkrahúsinu ásamt að berjast fyrir því að húsnæðið og reksturinn fái að þróast í takt við nútíma heilbrigðisþjónustu.
Fagráð þeirra er þessa dagana að endurskoða og fara yfir hvar þörfin er brýnust með aðstoð. Stjórnin mun síðan tilkynna um næsta verkefni .
Þorvaldur þakkaði öllum þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem komu að verkefninu fyrir þeirra stuðning án þeirra hefði þetta ekki tekist. Hann sagði að nú væru samtökin vel í stakk búin til að halda áfram öflugu starfi sínu í stuðningi við sjúkrahúsið .
Hann brýndi heilbrigðisyfirvöld, framkvæmdastjórn og framkvæmdastjóra HSA að láta hvergi deigan síga við að efla á ný heilbrigðisstofnanirnar á Austurlandi.
Þörfin sýni til dæmis að sérhæfða heilabilunardeildin á Seyðisfirði, sú eina í landshlutanum , sem nú hefur verið starfrækt í 16 ár, sé fullsetin og kalli á aukið rými. Það sé til staðar í byggingunni en ekki notað.
Þá afhenti Lionsklúbbur Seyðisfjarðar við sama tækifæri sérstaka mótordrifna loftdýnu að gjöf til sjúkrahússins.
Frá vinstri: Örvar Jóhannsson, formaður Lionsklúbbs Seyðisfjarðar, Kristín Albertsdóttir forstjóri HSA, Þóra Ingvaldsdóttir hjúkrunarfræðingur, Þorvaldur Jóhannsson formaður hollvinasamtakanna form HSSS og Rúnar Reynisson yfirlæknir. Mynd: Þórir Dan Friðriksson.