Límdi síðasta skoðunarmiðann í dag: Hættur eftir 30 ár í bransanum
Páll Sigvaldason, starfsmaður Vinnueftirlitsins á Austurlandi, lét af störfum í dag eftir að hafa skoðað bíla og vinnuvélar í samfleytt þrjátíu ár. Hann segist hafa kynnst mörgum Austfirðingum á löngum ferli sem byrjaði af tilviljun.„Tilfinningin er góð," sagði Páll Sigvaldason aðspurður um hvernig honum liði eftir að hafa límt síðasta skoðunarmiðann á vinnutæki á ferlinum.
Páll hóf ferilinn við bifreiðaskoðun á Eskifirði sumarið 1985. „Það var hrein tilviljun að ég fór út í þetta. Það vantaði sumarafleysingamann austur og ég réði mig til sex mánaða.
Eftir það losnaði starf bifreiðaeftirlitsmanns á Héraði og í því starfi var ég næstu tuttugu árin."
Starfssvæðið náði frá Bakkafirði á Djúpavog, og um tíma á Hornafjörð. „Ég hef kynnst gríðarlega mörgum í mínum störfum. Fyrst kynntist maður öllum bíleigendum og þekkti þá nánast með nafni og annað hvert bílnúmer líka."
Fyrir tíu árum flutti Páll sig yfir til Vinnueftirlitsins þar sem hann skoðaði vinnuvélar. „Mér fannst komið gott eftir tuttugu ár. Þetta eru ekki ólík störf og ég þekkti vel til á Austurlandi þannig að þetta var engin kollsteypa."
Vinnueftirlitssvæðið hefur náð frá Gunnólfsvíkurfjalli suður að Skeiðará og því hefur þurft að fara víða. „Núna veit maður hver á hvaða vélar."
Þótt talsverðar breytingar hafi orðið á tækjunum á þrjátíu árum eru enn svipaðir hlutir sem skoðunarmaðurinn þarf að hafa auga fyrir. „Tækniþróunin spilar inn í en ýmsir hlutir eru óbreyttir eins og margt í stýrisbúnaðinum."
Hjólaskóflan sem Páll skoðaði hjá Myllunni í dag reyndist í góðu ásigkomulagi enda nýleg. Stundum hafa menn hins vegar fengið ábendingar um úrbætur og jafnvel endurskoðun en Páll segir menn almennt hafa tekið því vel.
„Menn eru yfirleitt ekki með ströggl þegar þeir sjá að hlutirnir eru ekki í lagi," segir hann og bætir við að ástand vinnutækja á Austurlandi sé almennt gott.
„Það varð mikil endurnýjun á árunum 2005-7 og nýleg tæki eru yfirleitt í lagi."
Páll er síður en svo sestur í helgan stein en hann hefur árum saman starfað sem ökukennari og hyggst gera það áfram.
„Ég ætla að halda áfram að gera það sem ég hef gert meðfram eftirlitsstörfunum. Ég hef verið í ökukennslu, sinnt akstri í verktöku og svo sit ég í bæjarstjórn."