Margar eignir seljast á fyrstu viku
Mikil eftirspurn er eftir fasteignum í Fjarðabyggð þessa dagana og seljast þær eins og heitar lummur.„Það er voðalega gaman að vera í þessum bransa núna," segir Þórdís Pála Reynisdóttir, fasteignasali og eigandi fasteignasölunnar Lindarinnar á Eskifirði.
Þórdís segir mestu eftirspurnina á Reyðarfirði, Neskaupstað og á Eskifirði – en þó sé eftirspurn að aukast á Fáskrúðsfirði. Þórdís er komin með liðsauka og mun Margrét Brynja Reynisdóttir verða henni innan handar og aðstoða eftir þörfum.
„Eftirspurnin er mikil. Ég er með einhverjar tíu sölur í gangi núna og mjög margar eignir seljast á fyrstu viku. Bæði eru heimamenn að kaupa sem og þeir sem hafa flutt að og hafa til þessa verið á leigumarkaði. Fasteignaverð á svæðinu er enn frekar lágt en sígur þó upp á við."
Það verða tvö ár í júní síðan Þórdís Pála opnaði Lindina fasteignir og segir eftirspurnina alltaf vera að aukast. „Það hafa komið toppar áður, en það er mjög mikið að gera núna – berast margar fyrirspurnir á dag. Það virðist ríkja mikil bjartsýni á svæðinu sem einhvernvegin smitar út frá sér."