"Brandur er ekki velkomin þar sem aðgengismál eru í ólestri"
„Við vissum að málunum væri ábótavant, en þau eru enn verri en okkur óraði fyrir," segir Gísli Steinar Jóhannesson, verkefnastjóri hjá True Adventure og talsmaður fundar um aðgengismál fatlaðra sem haldinn verður á Hótel Héraði í kvöld.Fundurinn er hluti af hringferð fjögurra manna teymis um landið, með það að markmiði að vekja máls á aðgengi fatlaðra og sýna hversu erfitt er að ferðast um Ísland á hjólastól. Ferðalangarnir eru þeir Brandur Bjarnason Karlsson, sem er lamaður og bundinn í hjólastól, Rögnvaldur Þórarinsson aðstoðarmaður hans, Þorbjörn Þorgeirsson ljósmyndari og Gísli Steinar.
Austurfrétt hafði samband við þá Gísla Steinar og Brand. Gísli Steinar segir upphaf ferðarinnar megi rekja til þess hversu oft honum hefur ofboðið aðgengismál fatlaðra, þegar hann hefur til dæmis ætlað að hitta Brand vin sinn í miðbæ Reykjavíkur.
„Það fylgir því mikil höfnun að komast ekki þangað sem mann langar og Brandur er ekki velkominn þar sem þessi mál eru í ólestri," segir Gísli Steinar. „Við vildum skoða málin sjálfir á landsvísu, hitta fólk á hverju svæði og fá það í lið með okkur til að stuðla að lausnum."
Gísli Steinar gagnrýnir opinber fyrirtæki og stofnanir, sem eigi að vera til fyrirmyndar, en sú sé því miður ekki raunin. „Margar opinberar stofnanir eru með afar lélegt aðgengi fyrir fatlaða og mörg þeirra standast alls enga skoðun. Við vorum á Vík í Mýrdal í gær og þar er sýsluskristofan á annarri hæð í lyftulausu húsi. Þetta er líklega athugunarleysi. Ég hef aldrei hitt neinn sem vill ekki hafa þessa hluti í lagi," segir Gísli Steinar – en markmið þeirra er að a.m.k. 200 fyrirtæki verði búin að gefa út yfirlýsingu um bætt aðgengi fyrir fatlaða þegar hringferðinni lýkur.
Fólk gerir sér ekki grein fyrir að þetta sé vandamál
Brandur segist ekki hafa ferðast mikið síðan hann veiktist fyrir átta árum. „Ferðin er algert ævintýri og margt að skoða, þó svo að það sem fyrir augu ber sé ekki endilega mjög bjart. Það er mikið sem þarf að laga, bæði í Reykjavík og út á landi. Fólk gerir sér einfaldlega ekki grein fyrir að þetta sé vandamál. Það er mjög erfitt að komast um og vesenið með ferðaþjónustuna hefur svo endanlega drepið þetta niður," segir Brandur.
„Fundirnir okkar eru ekki formlegir, við erum frekar að leitast eftir því að heyra frá fólkinu á hverjum stað, safna tengiliðum og leyfa fólki að finna að það er ekki eitt í baráttunni."
Fundurinn verður á Hótel Héraði og hefst klukkan 20:00 í kvöld.