Vilja gera Blúskjallarann aftur að þeirri félagsmiðstöð sem hann var
![oni web](/images/oni_web.jpg)
Sigurður Ólafsson, formaður Brján og einn skipuleggjanda, segir tilgang tónleikanna vera að safna fé til endurbóta á húsnæði klúbbsins sem og vekja athygli á breidd tónlistarlífsins í Neskaupstað.
„Á síðasta aðalfundi Brján var ákveðið að leggja aukna áherslu á starfið í Blúskjallaranum, en það hefur verið í minna lagi síðstu tvö árin vegna annarra stórra verkefna Brján, svo sem fjölskylduhátíðarinnar Neistaflugs. Neistaflug verður ekki framar tengt Brján, heldur er búið að stofna ný félagasamtök sem munu halda utan um hátíðina. Brján hyggst því safna vopnum sínum og beina sjónum að því að efla grasrótar- og félagsstarf í klúbbhúsinu, Blúskjallaranum.
Staðan er hins vegar sú að Blúskjallarinn gæti verið í betra ásigskomulagi. Fara þarf í þó nokkrar framkvæmdir til að flikka upp á húsnæðið og endurnýja hljóðkerfi," segir Sigurður.
Vilja halda áfram að vökva grasrótina
Sigðurður bendir á að ekki muni allar starfandi hljómsveitir ná að vera með á laugardaginn, en þrátt fyrir það komi sjö hljómsveitir fram. Sigurður lýsir sveitunum á þessa leið:
Alkalí: Gífurleg efnilegir krakkar, 15-17 ára.
Rannveig Júlía og Geiri: Rannveig er frábær söngkona og lagasmiður og Geir, pabbi hennar, er söngvari og gítarleikari í Coney Island Babies.
Winson: Dásamlega óútreiknanleg hljómsveit sem spilar frumsamda rokktónlist með áhrifum úr ýmsum áttum.
Dútl: Spilar funky djass-fusion tónlist og inniheldur m.a. gítarmeistarann Jón Hilmar Kárason, sem innan skamms heldur í tónleikaferð til Canada ásam Birni Thoroddssen. Dútl er einnig að taka upp sína fyrstu plötu þessa dagana.
Urð: Leikur frumsamda framsækna metaltónlist með áhrifum úr ýmsum áttum.
Coney Island Babies: Leikur frumsamið indírokk og gaf út hina frábæru plötu „Morning to kill" fyrir nokkrum árum síðan.
Oni: Leikur framsækinn stónermetal. Gaf út plötuna „Misadventures" í fyrra sem fékk fína dóma og viðtökur. Sveitin mun þann 11. apríl leika í sex hljómsveita úrslitum í Wacken hljómsveitakeppninni, en sigurvegari keppninnar muna spila á Wacken þungarokkshátíðinni í sumar. Oni hefur leikið víða um land síðustu árin og hefur troðið upp með mörgum að stærstu nöfnunum í íslensku rokki, svo sem Brain Police, Dimmu og fleirum, auk þess að leika á Eistnaflugi við góðar undirtektir.
„Þessa öflugu grasrót vill félagið halda áfram að vökva og meðal annars leggja áherslu á nýliðun í tónlistinni. Stefnt er að því að fá sem flesta með í starfið og að gera Blúskjallarann aftur að þeirri félagsmiðstöð sem hann var."
Tónleikarnir hefjast kl. 20.00 og kostar 1500 kr. inn. Allur aðgangseyrir rennur í framkvæmdasjóð félagsins.
Hljómsveitin Oni. Frá vinstri: Brynjar Örn Rúnarsson, Róbert Þór Guðmundsson, Daníel Magnús og Þorsteinn Árnason. Ljósm: Björn Natan