Bannað að vera fáviti: Heimildamynd um Eistnaflug frumsýnd á kvikmyndahátíð í kvöld
Heimildamyndin Bannað að vera fáviti (No Idiots Allowed) er opnunarmynd Reykjavík Shorts & Docs í ár. Einu sinni á ári fyllist, hinn annars rólegi bær, Neskaupstaður af þungarokkurum sem mæta á Eistnaflug, einu hreinræktuðu þungarokkshátíð landsins.Eingöngu heimaáhugi
Þó að hátíðin sé lítil á alþjóðlega vísu hafa margar af stærstu þungarokkssveitum heims spilað fyrir gesti hátíðarinnar. En af hverju var ráðist í að gera þessa mynd?
„Ég er ekki frumkvöðulinn að baki myndarinnar. Það er heimamaðurinn Siggi Jensson sem á heiðurinn af því að það var ráðist í þetta verkefni. Hann átti hugmyndina. Siggi er mikill tónlistaráhugamaður og á undraverðan hátt tókst honum skrapa saman pening fyrir upptöku á tónleikunum öllum og fyrir myndinni. En allt fjármagn sem kom í þetta verkefni er frá fyrirtækjum að austan. Ég var svo ráðinn inn sem leikstóri., svo þetta er eingöngu heimaáhugi sem liggur þarna að baki, “ segir Hallur Örn Árnason, kvikmyndagerðamaður sem jafnframt leikstýrir heimildamyndinni.
Mikil vinna að baki
Tók langan tíma að gera myndina? „Eiginlega má að segja að við höfum verið að vinna þessa mynd í eitt ár, en hún er tekin upp á fimm dögum á meðan á hátíðinni stóð í fyrra. Það voru tvö tökulið frá mér sem voru að taka upp heimildamyndina allan sólarhringinn. Og svo var heill her manna að taka upp tónleikana og það var í raun þriðja tökuliðið.“
Hverju á fólk von á? „Vinkilinn í heimildamyndinni er sá að við fáum að eins að kynnast bænum og fólkinu þar, og svo sjáum við hvernig bærinn umbreytist þegar hátíðin kemur og allir þungarokkararnir. Svo förum við að sjálfsögðu yfir sögu Eistnaflugs, en hátíðin sem heimildamyndin fjallar um var sú tíunda sem var haldin.
Er að vinna í því að sýna myndina fyrir austan
Eiga Austfirðingar von á að fá að sjá myndina hér fyrir austan? „Myndin verður pottþétt sýnd á Rúv, það er búið að semja um það. En Það er verið að vinna í því að sýna myndina hér fyrir austan og við erum líka að skoða að sýna hana á fleiri stöðum,“ segir Hallur Örn, leikstjóri að lokum.
Bannað að vera fáviti verður sýnd í kvöld fimmtudaginn 9.apríl kl. 20 í Bíó Paradís í Reykjavík.