Allir geta náð sigri í lífnu: Páll Óskar Hjálmtýsson og Magnús Stefánsson funda um eineltismál á Austurlandi
![palloskar eineldi hopmynd web](/images/stories/news/2015/palloskar_eineldi_hopmynd_web.jpg)
Fyrirlesturinn var fyrir nemendur, foreldra og kennara. Páll Óskar og Magnús heimsóttu einnig grunnskólana á Eskifirði og Neskaupstað í dag, en Alcoa Fjarðaál veitti styrk fyrir komu þeirra.
Byrjað var á því að sýna nýja leikna heimildarmynd um æsku Páls Óskars, en hann upplifði mikið einelti í grunnskóla frá 7 til 14 ára aldurs.
Páll Óskar útskýrði eineltishringinn og hverjar helstu birtingarmyndir eineltis eru. Einnig fór hann yfir sína reynslu og greindi frá því hvernig hann vann sig út úr eineltinu.
Magnús Stefánsson fór yfir hugarfar og bakgrunn geranda í eineltismálum og notaði þar sína eigin reynslu úr æsku sem gerandi. Að lokum svöruðu þeir spurningum úr sal.
Vilja opna umræðuna
Í samtali við Austurfrétt sagði Magnús að verkefninu sé ætlað að opna umræðuna og auka skilning á orsök og afleiðingum eineltis. „Við vonum að þetta vekji fólk til umhugsunar og fái gerendur í einhverjum tilvikum til þess að stíga fram, viðurkenna að þeir séu að gera rangt og leita sér aðstoðar. Einnig að það gefi þolendum von og styrk að sjá hve langt Palli hefur náð sér vel á strik – því jafnvel þó svo einhverjir séu í erfiðum kringumstæðum í dag geta allir náð sigri í lífinu."
Það er töff að klaga
Grunnskóli Reyðarfjarðar hefur unnið samkvæmt Eineltisáætlun Olweusar í tíu ár. Ásta Ásgeirsdóttir, skólastjóri, segir það hafa gefið góða raun. „Það er mikill sjáanlegur munur frá því við byrjuðum að vinna eftir Olweusaráætlunni," segir Ásta. „Þegar við vorum að byrja var eineltið um 16% en nú er það í 4-5%. Við höfum farið niður í 3% og stefnum auðvitað að því að vera eins lág og möguleg er."
Ásta segir mikilvægast að öll mál séu upp á borðinu. „Það skiptir miklu máli því þá er hægt að grípa strax inn og það munar gífurlega miklu, en unnið er eftir ákveðnu ferli. Nemendur vita að þeir mega og eiga að láta vita ef eitthvað kemur uppá. Nú segjum við, það er töff að klaga, við gerum öllum greiða með því."