„Kaffi Sunnó" opnar í Steinasafni Petru í sumar: Fjölskyldan sameinaðist í undirbúningsvinnu um páskana
Nú styttist í vorið með tilheyrandi ferðamannastraumi í Steinasafn Petru á Stöðvarfirði. Stórfjölskylda Petru, sem rekur safnið, sameinaðist í garðinum um páskana við undirbúning ferðamannatímans.Ívar Ingimarsson, barnabarn Petru, segir undirbúning næsta sumar hefjast strax að hausti, en í byrjun október er garðurinn undirbúinn fyrir veturinn þannig að auðveldara sé að þrífa hann að vori.
„Undanfarin ár hafa börn Petru, systkinin Ingimar, Elsa Lísa, Sveinn og Þórkatla ásamt mökum og þeim börnum og barnabörnum sem eiga heimagengt, komið saman í Steinasafninu um páskana til að þrífa og gera það klárt fyrir sumarið," segir Ívar.
Verkefnalistinn er ærinn og páskarnir því annasamir hjá fjölskyldunni. „Allir þeir steinar sem eru úti eru teknir niður af bekkjum og lagðir á jörðina þar sem hver og einn þeirra er smúlaður auk þess sem allir bekkir og borð eru hreinsuð. Mikill snjór var í garðinum í ár og þurfti því að byrja á því að moka honum frá til þess að hægt væri að komast að steinunum. Vegna þessa komumst við ekki í að hreinsa blómabeðin, undan trjám og önnur svæði, en það verður gert jafnt og þétt fram að formlegri opnun 1. maí."
Ekki er nóg með að garðurinn sé fullur af steinum, heldur er húsið fullt af þeim og öðrum munum. „Það er aðeins svefnherbergið hennar ömmu heitinnar sem ekki eru steinar í," segir Ívar. „Alla þessa steina þarf líka að þrífa, en með öðrum hætti þó, því margir þeirra eru mjög viðkvæmir. Í stað þess að smúla þá með þáþrýstidælu eru þeir teknir niður og þvegnir í bala með sápuvatni og raðað upp aftur. Þetta er mikið verk en líka virkilega skemmtilegur tími þegar fjölskyldan kemur saman."
Fjölskyldan stendur vaktina
Eftir að fjöldi þeirra sem vildu skoða safnið jókst var ljóst að Petra gæti ekki tekið á móti öllum ein, en undanfarin 10-15 ára hafa verið að staðaldri verð þrír starfsmenn í safninu. Systkinin skipta sumrinu á milli sín og sjá fjölskyldur þeirra um fimm vikur á því tímabili sem formleg opnun á safninu er. Formleg opnun er frá 1. maí til 30. september, auk þess sem opið er fyrir fyrirframbókaða hópa allan veturinn.
„Mesti straumurinn hjá okkur er eins og hjá annari ferðaþjónustu á Íslandi í júní, júlí og ágúst en jafnt og þétt hafa þessir jaðarmánuðir, maí og september verið að stækka. Földi gesta hefur aukist jafn og þétt í gegnum árin og áratugina – fyrir utan árið eftir hrun þegar gestum fækkaði – en svo hefur þetta bara stigið aftur upp á við og er safnið einn fjölfarnasti ferðamannastaður Austurlands," segir Ívar.
Alltaf verið að breyta og bæta
Steinasafnið tekur sífelldum breytingum, til dæmis bætast við nýjir steinar ár hvert, en börn, barnabörn og barnabarnabörn halda ennþá í hefðina að tína steina þó það sé ekki í eins miklu mæli og hjá Petru.
„Mesta breytingin á þessu ári er sú að ákveðið var að opna útikaffihús í garðinum, Kaffi Sunnó, fyrir gesti safnsins og verið er klára byggingu þess núna. Þar verður boðið upp á smurðar samlokur, sætabrauð, súpu og heita og kalda drykki. Þetta er viðbót sem vonandi fellur vel í kramið hjá gestum safnsins.
Eins var ráðist í að útbúa nýja og bætta heimasíðu, www.steinapetra.is Áhersla var lögð á að hafa hana sem aðgengilega og því var hún þýdd á fimm tungumál auk íslensku. Þar geta menn nú lesið um sögu safnsins á frönska, þýsku, kínversku, rússnesku og spænsku," segir Ívar.